Viðskiptaráð Íslands

Aukin áhersla á virkni og þátttöku á vinnumarkaði

Viðskiptaráð hefur skilað umsögn um áform um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar. Í umsögninni er tekið undir mikilvægi þess að draga úr langtímaatvinnuleysi og styðja atvinnuleitendur til virkni á vinnumarkaði. Ráðið telur tímabært að bótatímabil verði stytt til samræmis við það sem þekkist á Norðurlöndum en varar við lögfestingu desemberuppbótar.

Viðskiptaráð, Samtök atvinnulífsins, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök iðnaðarins, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök ferðaþjónustunnar og Samorka hafa tekið til umsagnar áform um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar sem birt voru á samráðsgátt stjórnvalda 4. september sl.

Í áformunum felst m.a. að hámarkslengd tímabils sem atvinnuleysistryggingar eru greiddar verði stytt um 12 mánuði þannig að heimilt verði að greiða atvinnuleysistryggingar í samtals 18 mánuði í stað 30 mánaða líkt og nú er samkvæmt gildandi lögum. Þá stendur til að breyta lágmarksskilyrði fyrir ávinnslu atvinnuleysistrygginga þannig að viðkomandi atvinnuleitendi þarf að hafa starfað á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 12 mánuði á ávinnslutímabili, en samkvæmt gildandi lögum kann atvinnuleitandi að hafa áunnið sér hlutfallslegan rétt eftir 3 mánuði á vinnumarkaði. Einnig stendur til að lögfesta greiðslu desemberuppbótar innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Auk þessara atriða stendur til að leggja fram breytingar á lögunum sem ræddar voru á vettvangi samstarfshóps til heildarendurskoðunar laga um atvinnuleysistryggingar sem starfaði á árunum 2021-2023.

Samtökin fagna áformunum og taka undir mikilvægi þess að stuðla að aukinni virkni hjá þeim hópi sem er útsettur fyrir langtímaatvinnuleysi. Mikilvægt er að áfram verði unnið að því að draga úr langtímaatvinnuleysi hér á landi. Ljóst er að bótatímabil atvinnuleysistrygginga er hvergi jafn langt á Norðurlöndunum og á Íslandi og eðlilegt að það verði fært í sama horf og tíðkast í nágrannaríkjum okkar. Samtökin taka jafnframt undir mikilvægi þess að áhersla atvinnutryggingakerfisins sé að styðja við virkni og að aðstoða atvinnuleitendur við að komast út á vinnumarkað. Samtökin telja aftur á móti varhugavert að desemberuppbót atvinnuleysistrygginga verði lögfest, en slíkt jafngildir í rauninni því að grunnbætur atvinnuleysisbóta hækki að jafnaði um 2,5%-3% á mánuði fyrir þá sem fá uppbótina greidda.

Fram kemur í áformaskjali ráðherra að áætlað er að heildarfjárhagsáhrif á ríkissjóð vegna frumvarpsins verði útgjaldalækkun um rúmlega 5.800 til 6.400 milljónir á ársgrundvelli, að teknu tilliti til útgjalda vegna fyrirhugaðrar lögfestingar desemberuppbótar. Er þannig áætlað að stytting bótatímabils leiði til árlegrar útgjaldalækkunar upp á 6.000 til 6.600 milljónir króna og að útgjaldalækkun vegna þrengri lágmarksskilyrða ávinnslutímabils verði allt að 200 milljónir króna á ári. Þá er gert ráð fyrir 400 til 450 milljón króna útgjaldaaukningu vegna desemberuppbótar. Að mati samtakanna hljóta fyrirhugaðar breytingar að skapa forsendur fyrir lækkun atvinnutryggingagjalds.

Atvinnutryggingagjaldið er nú 1,35%. Miðað við áætlaðar tekjur ríkissjóðs af tryggingagjöldum skv. fjárlagafrumvarpi vegna ársins 2026 ættu að vera forsendur fyrir því að það lækki um hátt í fjórðung úr prósenti vegna þeirra breytinga sem boðaðar eru. Þó ber að hafa í huga að atvinnustig sveiflast með hagsveiflunni. Þannig er atvinnuleysi meira þegar hart er í ári en minna þegar hagkerfið er í þenslu. Til þessara þátta þyrfti að taka tillit til við endanlegt mat á svigrúmi til lækkunar atvinnutryggingagjaldsins vegna boðaðra breytinga á atvinnuleysistryggingum.

Samtökin hafa fagnað því forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar að hagræða í ríkisrekstri og forgangsraða í opinberri þjónustuveitingu. Að sama skapi hafa samtökin fagnað viðleitni stjórnvalda til að auka verðmætasköpun í atvinnulífinu. Samtökin vilja því eindregið hvetja til þess að stjórnvöld láti athafnir fylgja orðum og sjái til þess að vænt hagræðing af fyrirhuguðu lagafrumvarpi skili sér til atvinnurekenda sem greiða atvinnutryggingagjald.

Að lokum vilja samtökin lýsa sig reiðubúin til frekara samráðs og samtals vegna fyrirhugaðrar lagasetningar. Samtökin telja mikilvægt að aðilar vinnumarkaðarins komi sér í lagi að útfærslu breytinga á stjórnsýslu atvinnuleysistrygginga og hvernig eftirliti innan kerfisins verði háttað til framtíðar.

Umsögnina í heild sinni má lesa hér.

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024