Styðja þarf við erlenda fjárfestingu í stað þess að torvelda hana
Viðskiptaráð og fleiri aðildarsamtök atvinnulífsins hafa skilað sameiginlegri umsögn um drög að frumvarpi atvinnuvegaráðherra um rýni á fjárfestingum erlendra aðila. Ráðið fagnar því að tekið hafi verið mið af gagnrýni sem fram kom á fyrri stigum, en telur að enn þurfi að skerpa á mörgum atriðum. Sérstaklega er bent á að tryggja þurfi skýrt, einfalt og skilvirkt regluverk sem styður við erlenda fjárfestingu í stað þess að torvelda hana.
Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, SVÞ-Samtök verslunar og þjónustu, Samtök ferðaþjónustunnar, Samorka, Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu og Viðskiptaráð Íslands (samtökin) hafa tekið til umsagnar drög að frumvarpi atvinnuvegaráðherra til laga um rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu sem birt var í samráðsgátt stjórnvalda 2. október sl.
Samtökin skiluðu umsögn um frumvarp sama efnis á 154. löggjafarþingi, dags. 8. apríl 2024, en það frumvarp náði ekki fram að ganga. Samtökin lögðust þá gegn fyrirhugaðri útfærslu löggjafarinnar, eins og hún var á þeim tíma, ekki síst vegna þess að gildissvið frumvarpsins var að mati samtakanna óskýrt, of víðtækt og til þess fallið að geta haft hamlandi og þar með neikvæð áhrif á erlenda fjárfestingu á Íslandi. Samtökin skiluðu einnig umsögn um áform um lagasetningu, dags. 4. júní 2025. Samtökin hvöttu þá til þess að endurskoðun regluverksins um erlendar fjárfestingar færi fram á heildrænum og samþættum grunni með það að markmiði að laða að erlenda fjárfestingu. Samtökin vilja koma á framfæri ánægju með að framlögð frumvarpsdrög taki að nokkru leyti mið af gagnrýni sem fram kom á fyrri stigum en enn eru atriði sem þarfnast nánari skoðunar.
Samtökin taka undir mikilvægi þess að hér á landi verði sett rýnilöggjöf um erlendar fjárfestingar. Breyttar aðstæður á alþjóðamörkuðum, meðal annars vegna gervigreindar-byltingarinnar og aukinnar áherslu á öryggis- og varnarmál, kalla á að sett sé rýnilöggjöf sem stenst alþjóðlegan samanburð. Slík löggjöf, að því gefnu að hún sé einföld, gagnsæ og skýr, getur þannig stutt við erlenda fjárfestingu. Samtökin árétta mikilvægi þess að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt er til að gæta samræmis milli ríkja og að skilvirk málsmeðferð verði tryggð.
Í því ljósi vilja samtökin koma eftirfarandi atriðum á framfæri sem þarfnast nánari skoðunar:
Gildissvið laganna er enn óþarflega rúmt að mati samtakanna og er ráðherra jafnframt veitt heimild til að tilgreina nánar í reglugerð þá starfsemi sem fellur undir gildissvið laganna. Rúmt gildissvið veldur óvissu um það hvort tiltekin fyrirtæki/starfsemi telji sig þurfa að undirgangast rýni. Skv. 7.gr. frumvarpsdraganna er erlendum aðila heimilt að leita forálits ráðherra á því hvort fyrirhuguð ráðstöfun sé tilkynningarskyld. Engin tímamörk eru hins vegar tilgreind varðandi forálit en mikilvægt er að um það gildi þröngur tímarammi, t.d. að hámarki fimm virkir dagar, að því gefnu að fullnægjandi gögnum hafi verið skilað.
Innlendur aðili telst til erlends aðila ef 25% eða meira af eignarhlutum eða atkvæðisrétti hans er beint eða óbeint í eigu erlends eða erlendra aðila miðað við samanlagða hlutdeild þeirra. Skilgreining á tengdum aðila (innlendum og erlendum) skv. orðskýringum frumvarpsins er afar rúm og matskennd sem getur leitt til vandkvæða við mat á því hvort 25% þröskuldinum sé náð.
Um erlendan aðila er að ræða ef erlent eignarhald býr yfir samanlagt 25% atkvæðisréttar. Þannig gæti dreift eignarhald fjölmargra ótengdra erlendra aðila leitt til tilkynningarskyldu jafnvel þótt enginn einn erlendur aðili hefði áhrif á stjórnarhætti eða færi með veruleg yfirráð í starfseminni. Samtökin telja það lágan þröskuld fyrir samanlagt eignarhald erlendra ótengdra aðila og að ákvæðið krefjist nánari skoðunar.
Jafnframt eru allir aðilar með erlent lögheimili skilgreindir sem erlendir aðilar. Vegna ákvæðis um yfirráð leiðir það til þess að dótturfélög slíkra aðila á Íslandi teljist því einnig til erlendra aðila. Þannig teljast t.a.m. íslensk félög sem eru skráð í íslensku kauphöllina s.s. Alvotech, Amaroq og Oculis til erlendra aðila í skilningi laganna.
Í 5. gr. frumvarpsins er fjallað um tilkynningarskyldu vegna tiltekinna viðskipta- og samstarfssamninga og á hún ekki einungis við um eignarhluta heldur einnig láns- og veðsamninga og tiltekna samstarfs- og viðskiptasamninga. Þetta, ásamt ofangreindum atriðum varðandi skilgreiningu á erlendum aðila, gerir það að verkum að sú staða getur hæglega komið upp að viðskiptabankar teljist til erlendra aðila í skilningi laganna og lánveitingar þeirra þannig háðar samþykki stjórnvalda. Það er ólíklega ætlun stjórnvalda að setja eftirlitsskyldum viðskiptabönkum slíkar skorður við lánveitingar og leggja samtökin því til að settar verði sérreglur um eftirlitsskyld fjármálafyrirtæki.
Jafnframt er ljóst að fjöldi samstarfs- og viðskiptasamninga fjölmargra íslenskra fyrirtækja með erlent eignarhald við önnur íslensk félög verði háður tilkynningu og samþykki stjórnvalda. Samtökin telja það langt gengið og hvetja til útfærslu sem girðir fyrir að samstarfs- og viðskiptasamningar milli íslenskra fyrirtækja verði tilkynningarskyldir.
Þá er samkvæmt 5. gr. 3.tl. a. mjög víðtæk tilkynningarskylda varðandi samstarfsverkefni um rannsóknir og þróun, á þann hátt að slík verkefni eru tilkynningarskyld ef erlendi viðsemjandinn hefur neitunarvald eða getur tekið úrslitaákvörðun um samstarfið eða nýtt sér afurðir þess. Enginn fyrirvari er hér gerður um mikilvægi slíkra samstarfsverkefna eða að þau geti haft einhver áhrif á starfsemi innlends rekstraraðila. Þá ber að hafa í huga mikilvægi framleiðslu á hlutum með tvíþætt notagildi sem hefur aukist undanfarin misseri. Mikilvægt er að umrætt ákvæði hamli ekki slíkri þróun.
Undanþáguheimild ráðherra í 3. mgr. 5. gr. er þröngt afmörkuð og væri til bóta að hún næði líka til 1. og 2. tl. Þannig má t.d. sjá fyrir að strax mætti undanskilja fjármögnun, styrki og samstarfssamninga við stofnanabanka, eins og t.d. NIB, styrki frá nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins o.fl. Þá er óljóst til hvaða staðla er verið að vísa í umræddri málsgrein.
Forræði og ákvörðun vegna allra mála verður í höndum ráðherra samkvæmt frumvarpsdrögunum, ólíkt því sem þekkist á hinum Norðurlöndunum þar sem rýnin fer fram á vettvangi nefnda eða innan ráðuneytis. Samtökin telja að betur færi á því að lagt væri mat á tilkynningar með samræmdum hætti á faglegum grunni t.d. á vegum sérstakrar nefndar ráðuneytisins fremur en að ábyrgðin liggi eingöngu hjá ráðherra þar sem hætta er á að ákvarðanir litist af pólitískum áherslum hverju sinni.
Ákvæði varðandi fasteignaréttindi hafa verið felld brott úr frumvarpinu. Hins vegar er fjallað um að styrkja núgildandi regluverk um takmarkanir á eignarráðum erlendra aðila yfir fasteignum og fasteignaréttindum, sbr. lög um eignarrétt og afnot fasteigna nr. 19/1966. Þau lög hafa verið talin íþyngjandi og flókin í framkvæmd með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á erlenda fjárfestingu. Samtökin telja að nauðsynlegt sé að samræma rýni á erlendum fjárfestingum með þeim hætti að þau viðskipti sem fara í gegnum rýniferlið þurfi ekki samhliða að óska eftir undanþágu frá banni við eignarrétti eða afnotarétti yfir fasteignum á grundvelli laga 19/1966. Slíkt mætti útfæra með ákvæði í rýnilöggjöf sem veitir sjálfkrafa undanþágu frá lögum 19/1966 séu félög tilkynningarskyld samkvæmt rýnilöggjöf í stað þess að sækja þurfi um sérstaka undanþágu til dómsmálaráðuneytis.
Samtökin óska eftir því að ráðuneytið geri breytingar á frumvarpinu með tilliti til ofangreinda athugasemda. Samtökin árétta að fjárfesting er grundvöllur framfara og lífskjarasóknar og því mikilvægt að ekki verði lagðar á séríslenskar kröfur sem hindra erlenda fjárfestingu. Í því samhengi verður að tryggja að regluverk um rýni verði samræmt annarri eftirlitsskyldu til að sporna gegn óhóflegu flækjustigi milli eftirlitsstofnana og íþyngjandi eftirliti.
Alþjóðleg samkeppni ríkir um fjármagn og spilar þar skýrt og gagnsætt regluverk lykilhlutverk í eftirspurn. Það er því mikilvægt að vanda vel til verka og gæta hófs við lagasetningu sem snýr að fjárfestingarumhverfinu og ganga úr skugga um að ábatinn af slíkri löggjöf sé ávallt meiri en kostnaðurinn.
Að lokum vilja samtökin lýsa sig reiðubúin til frekara samráðs og samtals vegna fyrirhugaðrar lagasetningar.