18. maí 2016
Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn til allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um útlendinga. Ráðið telur breytingarnar sem frumvarpið kveður á um vera til mjög bóta. Samkeppni um erlenda sérfræðinga takmarkast ekki við landamæri og því er mikilvægt að bæta stöðu þeirra hér á landi.
Umsögnina má í heild sinni nálgast hér
Í umsögninni kemur m.a. eftirfarandi fram:
- Miklu máli skiptir fyrir alþjóðleg fyrirtæki að fá sérhæft starfsfólk til starfa með skjótum hætti. Seinlegt afgreiðsluferli dvalar- og atvinnuleyfa getur leitt til þess að Ísland verði undir í samkeppni um erlenda sérfræðinga. Ákvæði frumvarpsins sem miða að skilvirkara umsóknarferli eru því mikið fagnaðarefni.
- Með frumvarpinu er lagt til að Vinnumálastofnun verði heimilt að óska eftir upplýsingum frá atvinnurekanda, t.d. um hvort sérfræðiþekking útlendingsins hafi nýst í því starfi sem hann var ráðinn til að gegna, þegar lagt er mat á hvort skilyrði framlengingar atvinnuleyfis séu uppfyllt. Heppilegast er að fyrirtækin meti það sjálf hvort starfskraftar tiltekinna sérfræðinga nýtist þeim og leggst ráðið því gegn því að heimild þessi verði lögfest.
- Viðskiptaráð telur að gilda eigi sömu kröfur um veitingu atvinnuleyfa á grundvelli sérfræðiþekkingar og skattalegra ívilnana svo að þeir erlendu sérfræðingar sem fá atvinnuleyfi á grundvelli sérfræðiþekkingar uppfylli jafnframt skilyrði skattalegra ívilnana. Viðskiptaráð telur að þetta kerfi eigi að vera eins einfalt og hægt er. Óþarflega flókið ívilnanakerfi er einungis til þess fallið að auka kostnað atvinnulífsins og innan stjórnsýslunnar.