Viðskiptaráð fagnar þeirri stefnumörkun stjórnvalda að gera þjónustu hins opinbera stafræna sem kostur er.
Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar drög að frumvarpi til laga um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda og fagnar þeirri stefnumörkun stjórnvalda að gera þjónustu hins opinbera stafræna sem kostur er. Ráðið fagnar því sérstaklega að eyða skuli vafa um réttaráhrif birtingar upplýsinga í pósthólfinu, sem getur flýtt verulega fyrir því að pósthólfið þjóni hlutverki sínu sem miðlæg upplýsingagátt.
Ísland í dauðafæri
Stafræn vegferð stjórnvalda hér á landi byggist að hluta til á þeim aðferðum sem Eistar hafa tileinkað sér, en Eistland er meðal helstu fyrirmyndarríkja í stafrænni þjónustu hins opinbera. Fyrir rúmlega tuttugu árum skilgreindu Eistar sig sem stafrænt ríki og verma nú 3. sæti lista Sameinuðu þjóðanna um stöðu stafrænnar opinberrar þjónustu og stjórnsýslu (e. E-Government Development Index eða EGDI).[1] Íslendingar ættu að stefna í sömu átt enda í dauðafæri til að tileinka sér stafræna tækni í opinberri þjónustu líkt og Viðskiptaráð hefur áður bent á; notkun internetsins er mikil í öllum aldurshópum hér á landi og innviðir til þess góðir, svo eitthvað sé nefnt.[2]
Enn er Ísland þó eftirbátur margra samanburðarþjóða í þróun stafrænnar þjónustu á vegum hins opinbera. Þannig eru Norðurlöndin, að Noregi undanskildum, ofar á fyrrnefndum lista Sameinuðu þjóðanna en Ísland sem vermir 12. sætið. Í þessu sambandi vekur þó athygli að Ísland hefur farið upp um sjö sæti frá árinu 2018 og því verður ekki annað séð en að hér á landi hafi nokkrar framfarir átt sér stað á undanförnum árum.
Ávinningurinn skili sér sem fyrst
Líkur standa til þess að um 3-5 ma.kr. geti sparast á ári í framhaldi af stafrænu breytingaferli stjórnvalda þegar markmiðum þriggja ára áætlunar Stafræns Íslands um stafræna umbyltingu er náð árið 2022.[3] Ljóst er að ávinningur af stafvæðingu opinberrar þjónustu er mikill, hvort tveggja fyrir hið opinbera og þá sem þurfa að eiga í samskiptum við opinberar stofnanir.
Athygli vekur að í 2. mgr. 10. gr. frumvarpsdraganna er miðað við að birting verði stafræn eigi síðar en 1. janúar 2025. Að mati Viðskiptaráðs er eðlilegt að stofnunum sé gefinn einhver aðlögunarfrestur, en telur að þessi aðlögunartími sé of langur, ekki síst í ljósi þess að í frumvarpsdrögunum kemur fram að ætla megi að breytt fyrirkomulag við birtingar hafi að lokum í för með sér hagræðingu fyrir ríkissjóð upp á 300-700 milljónir króna á hverju ári, að ótalinni hagræðingu hjá sveitarfélögum. Af greinargerð með frumvarpsdrögum er ekki fyllilega ljóst hvers vegna gefa á svo langan tíma til að taka upp stafrænar birtingar. Ekki er heldur ljóst hvernig þjónustu verður forgangsraðað í þessu tilliti. Viðskiptaráð væntir þess að opinberum aðilum verði forgangsraðað eftir umfangi birtinga og með það í huga hve mikil áhrif starfsemi viðkomandi stofnunar hefur á líf og störf einstaklinga og lögaðila.
Viðskiptaráð styður að frumvarpið nái fram að ganga, að tilliti teknu til fyrrgreindra athugasemda.
[1] Sjá vef Sameinuðu þjóðanna: https://publicadministration.un.org/egovkb/Data-Center.
[2] Sjá myndband frá Viðskiptaþingi 2018: https://youtu.be/iowpjZQ1y8E.
[3] Sjá kynningu Andra Heiðars Kristinssonar, stafræns leiðtoga í fjármála- og efnahagsráðuneytinu: https://www.si.is/media/_eplica-uppsetning/Upplysingafundur-SUT-26.05.20.pdf.