Viðskiptaráð Íslands

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend fyrirtæki, bæði hvað varðar sölu og auglýsingar á áfengi. Jafna ætti samkeppnisstöðu fyrirtækja á Íslandi með fullu afnámi ríkiseinokunar og auglýsingabanns til samræmis við löggjöf annarra Evrópuríkja. Þetta kemur fram í nýrri umsögn Viðskiptaráðs um lagafrumvarp til breytinga á áfengislögum.

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar frumvarp dómsmálaráðherra til breytinga á áfengislögum. Með frumvarpinu er lagt til að heimilað verði að starfrækja vefverslun með áfengi í smásölu til neytenda með ýmsum takmörkunum t.d. varðandi afhendingartíma vara. Í greinargerð með frumvarpinu segir að með því sé ætlað að marka lagalegan ramma um það fyrirkomulag sem nú sé til staðar án heimildar. Ráðið vill koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri:

  • Vefverslun með áfengi er nú þegar heimil hérlendis
  • Rétta þarf af stöðu innlendra aðila
  • Lýðheilsumarkmið eru ótengd fyrirkomulagi ríkiseinokunar
  • Þörf á heildarendurskoðun áfengislöggjafarinnar

Í fyrsta lagi vill Viðskiptaráð árétta að vefverslun með áfengi er nú þegar leyfileg og í boði hjá mörgum rekstraraðilum hérlendis. Einungis ríkir lagaleg óvissa um heimildir innlendra aðila til að starfrækja vefverslun á jafnréttisgrundvelli við erlenda aðila. Þessi staða hefur leitt til þess að erlendar vefverslanir hafa aukið markaðshlutdeild sína hérlendis á undanförnum misserum.

Viðbrögð stjórnvalda við þessari þróun eru ámælisverð. Fyrirtækið sem nýtur ríkiseinokunar hefur kært einkarekin fyrirtæki til lögreglu og skattayfirvalda auk þess að fara fram á lögbann á starfsemi tveggja þeirra, en þeim málum var vísað frá dómi. Þá hefur fjármála- og efnahagsráðherra jafnframt haft pólitísk afskipti af sakamálarannsókn, [1] sem er í hæsta máta óeðlilegt, grefur undan sjálfstæði lögreglunnar og trausti borgaranna á því að mál þeirra séu rannsökuð á hlutlausan hátt.

Rétta þarf af stöðu innlendra aðila

Það er eflaust einsdæmi í íslenskri löggjöf að íslenskum neytendum sé ekki heimilt að kaupa vöru af innlendri verslun en heimilt að versla af erlendri verslun og fá senda heim að dyrum. Núverandi lagaumgjörð þjónar ekki tilgangi sínum og tekur ekki tillit til tækniframara og þeirra breytinga sem hafa orðið á alþjóðaviðskiptum á neytendamarkaði. Í framkvæmd geta neytendur flutt inn áfengi frá erlendum vefverslunum að vild til einkaneyslu en hið opinbera handstýrir neytendum í viðskipti við erlendar verslanir með því að takmarka atvinnufrelsi hér á landi.

Þessu til viðbótar er nauðsynlegt að endurskoða 20. gr. laganna, sem bannar hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum, en Ísland er eitt fárra Evrópulanda þar sem almennt bann er lagt við áfengisauglýsingum. Alþjóðlegar sjónvarpsútsendingar, internetið, samfélagsmiðlar og áfengislaus eða -lítil vörumerki hafa gert framangreint bann marklaust þegar kemur að forvörnum. Einu áhrif bannsins eru að veikja stöðu innlendra áfengisframleiðenda og fjölmiðla samanborið við erlenda samkeppnisaðila.

Tímabært er að bæta úr framangreindu og jafna þannig stöðu innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum á sviðum verslunar, framleiðslu og auglýsingasölu. Samhliða afnámi auglýsingabanns mætti setja skilyrði sem tækju mið af hljóð- og myndmiðlunartilskipun ESB. Þar er m.a. tekið fram að áfengisauglýsingar megi ekki beinast sérstaklega að ólögráða börnum, ekki megi tengja neyslu áfengis við bætta líkamlega hæfni eða akstur og að ekki eigi að skapa þá ímynd að neysla áfengis stuðli að félagslegri velgengni.

Lýðheilsumarkmiðum má ná með öðrum leiðum

Lýðheilsusjónarmiðum er gjarnan haldið á lofti þegar rætt er um einokun hins opinbera á áfengissölu. Þau byggja meðal annars á markmiðsákvæði laga um verslun með áfengi og tóbak um að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis og heildsölu tóbaks sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð, takmarka og stýra aðgengi að áfengi og tóbaki og draga þannig úr skaðlegum áhrifum áfengis- og tóbaksneyslu og að vernda ungt fólk gegn neyslu áfengis og tóbaks og takmarka framboð á óæskilegum vörum. Að mati Viðskiptaráðs er erfitt að sjá að slík sjónarmið standi því í vegi að frumvarpið nái fram að ganga.

Í þjóðfélagsumræðu og þinglegri meðferð fyrri mála tengdum áfengislögum hefur m.a. verið nefnt að núverandi fyrirkomulag takmarki annars vegar aðgengi ungmenna að áfengi og takmarki hins vegar aðgengi allra einstaklinga að áfengi. Það verður ekki séð að rekstur ÁTVR hafi miðað að því að takmarka aðgengi. Þannig hefur fjöldi verslana ÁTVR margfaldast og eru þær orðnar 51 talsins, ÁTVR heldur úti öflugu markaðsstarfi og starfrækir vefverslun auk 7 afhendingarstaða til viðbótar við verslanir sínar.

Þessu til viðbótar hefur erlendum vefverslunum fjölgað umtalsvert, innflutningur hefur verið gefinn frjáls, áfengissala á framleiðslustað hefur verið leyfð og neytendur geta fengið áfengi á veitingastöðum, kaffihúsum og kappleikjum, í sjoppum, matarvögnum, flugvélum og ferjum svo eitthvað sé nefnt. Samhliða þessu stóraukna aðgengi hefur unglingadrykkja hrunið.

Viðskiptaráð telur auðsýnt að fyrrgreindum lýðheilsumarkmiðum megi ná fram án þess að draga úr atvinnufrelsi með einokunarverslun ríkisins. Þannig væri skynsamlegra að taka upp fyrirkomulag áfengissöluleyfa með skýrum viðurlögum við lögbrotum. Slíkt fyrirkomulag hefur gefið góða raun þegar kemur að smásölu á tóbaki.

Hið opinbera beitir nú þegar sértækum sköttum til að hækka verð á áfengi og takmarkar þannig aðgengi. Þeir skattar eru óháðir fyrirkomulagi ríkiseinokunar. Vilji löggjafinn takmarka aðgengi að áfengi enn frekar með hærra vöruverði væri nærtækara að hækka áfengisgjöld í stað þess að stunda verslunarrekstur. Þótt áfengi sé ekki líkt og hver önnur neysluvara þýðir það ekki að hið opinbera þurfi að standa að sölu þess. Fjölmargar vörur sem almennt teljast ekki til venjulegra neysluvara, s.s. lyf, skotvopn og flugeldar, hafa um árabil verið seldar af einkaaðilum.

Aðgengi er aðeins einn af mörgum þáttum sem hafa áhrif á neyslu áfengis og ríkiseinokun er aðeins ein af mörgum leiðum til að takmarka aðgengi. Forvarnir og öflug meðferðarúrræði eru hér eftir sem hingað til árangursríkasta leiðin til að draga úr neikvæðum afleiðingum áfengisneyslu - ekki takmarkanir á frelsi fullorðinna einstaklinga til neyslu þess.

Þörf á heildarendurskoðun áfengislöggjafarinnar

Ríkiseinokun til áfengissölu er lögfest í 10. gr. áfengislaga nr. 75/1998 og 1. mgr. 7. gr. laga um verslun með áfengi og tóbak nr. 86/2011. Viðskiptaráð telur að hið opinbera eigi ekki að reka fyrirtæki í hefðbundnum atvinnurekstri. Á undanförnum áratugum hefur aukið frelsi í verslun leitt til gríðarlegrar kjarabótar fyrir íslenska neytendur en einokunarstaða ÁTVR hefur þær afleiðingar að kraftar samkeppni leiða síður til aukinnar hagkvæmni líkt og raunin hefur verið í verslun með aðra vöru. Það leiðir til sóunar á almannafé. Viðskiptaráð telur mikilvægt að gengið sé lengra en í þessu frumvarpi og að einokun ríkisins á rekstri áfengisverslana verði afnumin með öllu.

Varðandi fyrirliggjandi frumvarp er ráðið fylgjandi því að tekin verði af öll tvímæli um að innlend vefverslun áfengis verði heimil. En ráðið leggst gegn ákvæðum 6. gr. frumvarpsins þar sem er mælt fyrir um að óheimilt sé að afhenda áfengi á helgidögum þjóðkirkjunnar og takmarka hraða afhendingu og ákveðna tíma dags. Væri þetta til þess fallið að flækja starfsumhverfi og engu samræmi við aðrar kvaðir á vörur, hvort heldur þær teljast almennar eða hættulegar.

Brýn þörf er á heildarendurskoðun laga um áfengisverslun og -auglýsingar. Íslenskum fyrirtækjum hefur sem fyrr sagði verið mismunað um árabil, bæði hvað varðar sölu og auglýsingar þegar kemur að áfengi. Vel er hægt að ná fram lýðheilsumarkmiðum á skilvirkari og áhrifaríkari hátt án þess að íslensk fyrirtæki verði undir í samkeppni við erlenda aðila.

Viðskiptaráð styður viðleitni stjórnvalda til að jafna stöðu innlendra og erlendra aðila en telur fyrirliggjandi frumvarp ganga of skammt og vera of íþyngjandi í núverandi mynd. Ráðið áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á síðari stigum.

...

Tilvísun

1 Bréf fjármála- og efnahagsráðherra til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu (11. júní 2024): Slóð: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2024/06/11/Vegna-netsolu-afengis-til-neytenda/

Tengt efni

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024

Hallalaus fjárlög: Níu hagræðingartillögur Viðskiptaráðs

Í fjárlögum 2025 er áformað að reka ríkissjóð með 41 ma. kr. halla, sem væri …
8. október 2024

Mikilvægt að hraða endurskoðun laga um rammaáætlun

Viðskiptaráð ítrekar þá afstöðu sína að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, …
30. september 2024