Nýtt haglíkan: Hvers vegna skiptir ábyrg hagstjórn máli?

Viðskiptaráð Íslands kynnir nýtt haglíkan sem meðal annars sýnir hvers vegna launaþróun á Íslandi hefur sögulega verið ósjálfbær.

Í líkaninu geta allir geta fyllt inn sínar forsendur um verðbólgu, laun og fleiri hagstærðir til lengri tíma. Líkanið sýnir með gagnvirkum hætti samhengið milli þeirra og gefur til kynna hvort niðurstöðurnar séu nálægt einhverju sem fæst staðist til lengdar. Þegar þetta er ritað er Ísland við botn einnar verstu niðursveiflu í Íslandssögunni og að kljást við Íslandsmet í atvinnuleysi. Til að það takist að vinna hagkerfið upp úr þeirri stöðu er hagstjórnarkeðja peningastefnu, ríkisfjármála og vinnumarkaðar aldrei sterkari en veikasti hlekkurinn. Líkanið sýnir hvað getur gerst ef keðjan er veik eða sterk.

Sviðsmyndir varpa ljósi á hvað skiptir máli

Á myndinni hér að neðan má sjá samanburð þriggja sviðsmynda. Í grunnsviðsmynd hækka laun um rúm 4% eða sem nemur verðbólgu (2,5%) og framleiðni (1,5%). Ef launin aftur á móti hækka um 6% á hverju ári og annað er óbreytt er ójafnvægi fljótt að myndast. Launahlutfall færi innan fárra missera yfir fyrri met, sem einhverjum kann að þykja jákvætt. Sú skoðun breytist þó ef til vill ef haft er í huga að árið 2034 yrði nákvæmlega ekkert eftir til skiptanna í vaxtagreiðslur og hagnað og viðskiptahallinn jafnaði metið frá árinu 2006 (-23% af landsframleiðslu). Haldi þetta svo áfram er niðurstaðan sú að árið 2050 yrði launahlutfallið 113%, sem þýðir að launakostnaður yrði meiri en nemur allri verðmætasköpun sem kallar þá á stórfellda erlenda lántöku. Enda er niðurstaðan líka sú að viðskiptahallinn er -57% af landsframleiðslu sem kallar þá að samsvarandi erlenda lántöku á hverju ári.

Dæmið að framan myndi augljóslega ekki ganga upp, eins og reynslan sýnir. Til að ná aftur einhverju eðlilegu og sjálfbæru jafnvægi myndi verðbólga þurfa að aukast og gengið að gefa eftir í samræmi við laun. Niðurstaðan þá væri mjög svipuð og í grunnsviðsmynd en á kostnað verðbólgu.

Þetta þýðir þó alls ekki að launin geti ekki hækkað. Ef framleiðni hækkar ekki nema um einu prósentustigi meira en í grunnsviðsmynd og laun þá um rúm 5% er niðurstaðan sú að kaupmáttur (raunlaun) er nærri þriðjungi meiri þegar fram í sækir, á sama tíma og verðlag er stöðugt.

Tengt efni

Fimm staðreyndir inn í kjaraviðræður

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, skrifar um fimm staðreyndir ...
24. jan 2024

Engan ærsladraug í Karphúsið

Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs, fer yfir stöðu mála í kjaraviðræðum aðila ...
29. jan 2024

Vel sóttur Peningamálafundur Viðskiptaráðs

Peningamálafundur Viðskiptaráðs fór fram í morgun, 23. nóvember. Yfirskrift ...
23. nóv 2023