Viðskiptaráð Íslands

Vel heppnað Viðskiptaþing 2010

Á miðvikudaginn í síðustu viku sóttu um 400 manns hið árlega Viðskiptaþing viðskiptaráðs sem haldið var undir yfirskriftinni Er framtíð fyrir íslenskt atvinnulíf? Í ræðu formanns kom Tómas Már Sigurðsson m.a. inn á það að íslenskt atvinnulíf væri í viðkvæmri stöðu um þessar mundir og komandi lausnir muni því ákvarða samkeppnishæfni íslenska hagkerfisins. Varðandi skattabreytingar ríkisstjórnarinnar sagði hann: „Í stað þeirra gagngeru breytinga sem nýlega komu til framkvæmda hefðu stjórnvöld átt að setja sér einfalt markmið um að hér yrðu engir nýir skattar lagðir á. Með því væri hinsvegar ekki útilokað að stjórnvöld gætu aukið skatttekjur með skattahækkunum á fyrirliggjandi stofnum.“

Halda þarf umsvifum hins opinbera innan skynsamlegra marka
Tómas minnti á að stjórnvöld geti haft afgerandi áhrif á hvata fólks, fjármagns og fyrirtækja til að velja Ísland fram yfir önnur lönd með því að bjóða upp á hagfellt skattaumhverfi, halda umsvifum hins opinbera innan skynsamlegra og sjálfbærra marka og efla innviði samfélagsins. Lausnir á skuldavanda og rekstrarhalla ríkissjóðs muni ákvarða samkeppnishæfni íslenska hagkerfisins til framtíðar.

Í ræðu forsætisráðherra ræddi Jóhanna Sigurðardóttir m.a. um tillögur Viðskiptaráðs sem fram koma í skýrslunni Fjármál hins opinbera - aðrar leiðir færar og sagði: „Ég tel að margt í skattatillögum Viðskiptaráðs sé þess virði að um það sé tekin alvarleg umræða.“  Einnig kom hún inn á áhrif undangenginna skattahækkana og nefndi að ríkisstjórnin hafi notað blandaða leið niðurskurðar og skattahækkana, en sagði jafnframt: „Það er sannarlega hægt að halda því fram að skattahækkanir dragi þrótt úr atvinnulífi og ég hef sérstakar áhyggjur af því að hækkun tryggingagjalds hafi neikvæð áhrif á möguleika smærri fyrirtækja.“ Varðandi niðurskurð hjá hinu opinbera tók Jóhanna undir það að sýna þurfi aðhald og sagði: „það þarf að reka ríkið og stofnanir þess á einfaldari og ódýrari hátt en nú er gert.“

Að lokum minnti hún á að skapa þurfi traust og trú á framtíðina og að nálgast þurfi erfið verkefni með jákvæðu hugarfari.

„Höfum seigluna til að koma okkur í gegnum þessa lægð“
Uppbyggilegar umræður fóru fram í pallborði fulltrúa íslensks atvinnulífs á þinginu. Meðal þess sem rætt var um var að á Íslandi þurfi að mynda pólitíska samstöðu sem fyrst og að mikilvægt væri að að markviss stefnumörkun á vegum stjórnvalda ætti sér stað. Þegar spurt var um afstöðu til fyrningar aflaheimilda í sjávarútvegi, svokallaðari fyrningarleið, svaraði Þorsteinn Pálsson „Þar er verið að hverfa frá markaðslausnum í stjórn sjávarútvegs yfir í félagslegar lausnir“. Þetta þýði minni framleiðni fyrir eigendur auðlindarinnar og þarf því almenningur að greiða fyrir það með hærri sköttum.


Rakel Sveinsdóttir hjá CreditInfo talaði um að við Íslendingar þyrftum að herða okkur í mörgu ef við ætluðum að verða samkeppnishæf í alþjóðlegu umhverfi. Þar væru upplýsingaskil mjög mikilvæg og meðal þess eru skil fyrirtækja á ársreikningum. Hún tók jafnframt fram að við Íslendingar „höfum seigluna til að koma okkur í gegnum þessa lægð“. Þegar talið barst að inngöngu Íslands í Evrópusambandið svaraði Hermann Guðmundsson að hann væri „ekki til í að ganga inn í ESB á hvaða verði sem er, en innganga í Evrópusambandið er Íslandi mjög mikilvæg.“

Ræðu Tómasar má nálgast hér. Ræðu Jóhönnu má nálgast hér.

Tengt efni

Einfalda megi skattkerfið

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, fullyrti að einfalda …
16. janúar 2026

Myndband: Er ríkið farið að þjónusta sig sjálft?

Lísbet Sigurðardóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs, fjallar um opnunartíma …
15. janúar 2026

Aðalfundur Viðskiptaráðs 2026

Aðalfundur Viðskiptaráðs Íslands fer fram þriðjudaginn 10. febrúar kl. 11:30 í …
13. janúar 2026