Viðskiptaráð Íslands

Viðskiptaþing 2012: Efla þarf stefnumótun og samstarf atvinnulífs og stjórnvalda

Í ræðu sinni á Viðskiptaþingi, sem nú stendur yfir, sagði Tómas Már Sigurðsson formaður ráðsins að tækifæri Íslendinga væru nánast óþrjótandi. En hugsunarháttur og tíðarandi hafa umtalsverð áhrif á þau. Sagði hann að rétt eins og á árunum fyrir hrun, þar sem sló út í öfgar bjartsýni og kapps, þá hafi umræðan á undanförnum árum verið of neikvæð og niðurrifskennd. Þótt uppgjör við liðna tíð væri mikilvægt væri lærdómur hrunsins enn mikilvægari og það hvernig tekst að nýta hann til að bæta samfélagið, leikreglur þess og grunngerð.

„Til þess að við getum nýtt þessi tækifæri þá skiptir öllu að atvinnulífið, verkalýðsfélögin og stjórnvöld vinni markvisst saman. Það samstarf þarf að snúa að því að gera allt sem mögulegt er til að auðvelda atvinnulífinu að þroskast og dafna og búa þannig til fleiri störf, greiða hærri laun og auka þannig lífskjör þjóðarinnar allrar. Þetta eru hinir sameiginlegu hagsmunir sem allir eiga að geta verið sammála um.“ sagði Tómas.

Í þessu ljósi hefði Viðskiptaráð lagt höfuðáherslu á tvennt undanfarin ár. Að fara vel yfir störf sín í aðdraganda hrunsins og í framhaldinu að leggja fram málefnalegar tillögur um hvað betur má fara og til hvaða aðgerða þarf að grípa til að leysa þau efnahagsvandamál sem við blasa. Sagði Tómas að innan stjórnkerfisins hafi verið amast út í gagnrýni Viðskiptaráðs og að skilaboðin þaðan væru iðulega að ráðið ætti ekkert með það að gera að gagnrýna stjórnvöld.

„Slíkur málatilbúnaður er bæði fráleitur og hættulegur. Hann er fráleitur vegna þess að það er skylda okkar allra að leggja allt það til sem við best kunnum og trúum að geti verið til framfara fyrir þjóðina. Fordómalausar umræður og yfirvegaðar rökræður eiga síðan að skera úr um hver stefnan á að verða. En málatilbúnaðurinn er líka hættulegur því hann er krafa um þöggun, krafa um þeir sem gerst þekkja til í atvinnulífi landsmanna segi ekki skoðun sína og veiti ekki gagnrýnið og málefnalegt aðhald á mikilvægum tímum í sögu þjóðarinnar. Að auki er rétt að nefna, að Viðskiptaráð hefur ávallt verið gagnrýnið á stjórnvöld, óháð hver þau eru hverju sinni, ef stjórn efnahagsmála er á skjön við hagsmuni atvinnulífs og hagsmuni samfélagsins í heild.“ sagði Tómas.

Þá minnti Tómas á að hagsmunirnir af bættu starfsumhverfi atvinnulífs væru sameiginlegir öllum. Því þyrfti að ræða efnahags- og viðskiptamál af yfirvegun og skynsemi í stað skætings og pólitísks útúrsnúnings. Þó væri sjálfsagt að takast á um málefni en lyfta þyrfti umræðunni um efnahagsmál upp úr skotgröfum undanfarinna missera.

„Stöðugleiki í efnahagsmálum er grundvöllur þess að atvinnulífið geti nýtt þau tækifæri sem svo sannarlega eru til staðar hér á landi. [...]. Það eru gömul sannindi og ný að það er hlutverk stjórnvalda að skapa rammann, atvinnulífsins að skapa verðmætin sem m.a. skila sér í verðmætum störfum. Verðmætum störfum sem standa undir launum sem eru sambærileg við það sem best gerist í nágrannalöndum okkar. Til þess að þetta markmið náist þurfum við að efla stefnumótun og samstarf atvinnulífis og stjórnvalda. Það samstarf á að snúast um aukna verðmætasköpun, allri þjóðinni til heilla.

Viðskiptaráð vill leggja allt sitt af mörkum til þess að þetta samstarf megi ganga sem best fyrir sig og fái skilað sem mestum árangri. [...]. Viðskiptaráð mun á næstunni beita sér fyrir stefnumótandi vinnu um hvert stefna beri í atvinnumálum þjóðarinnar, hvernig við getum best nýtt tækifærin sem svo sannarlega eru til staðar, hverju við þurfum að breyta til að leysa úr læðingi allan þann kraft sem býr með okkur og hvernig við eigum að stilla saman strengi þannig að sundurlyndisfjandinn spilli ekki fyrir öllu því jákvæða og góða sem þjóðin á svo sannarlega skilið og landið okkar bíður uppá“ sagði Tómas.

Ræðu Tómasar má nálgast hér.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024