Á ráðstefnu um stjórnarhætti fyrirtækja, Getum gert miklu betur!, sem haldin var í gær á vegum Viðskiptaráðs, Samtaka atvinnulífsins, Kauphallarinnar og rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti var m.a. fjallað um áhrif góðra stjórnarhátta á rekstur fyrirtækja. Hátt í 100 manns sóttu ráðstefnuna, en þar tóku til máls Benedikt Jóhannesson, ritstjóri Vísbendingar, Chris Pierce, forstjóri Global Governance Service í Bretlandi og Páll Harðarsonar forstöðumaður rekstrarsviðs Kauphallar Íslands.
Chris Pierce fjallaði um þennan þátt góðra stjórnarhátta í sínu erindi sem bar yfirskriftina Past, present and future corporate governance lessons. Að hans mati voru rökin fyrir bættum stjórnarháttum út frá rekstrarforsendum fyrirtækja ekki nægilega sannfærandi til margra ára. Vegna þess hafi viðfangsefnið ekki hlotið næga umfjöllun meðal stjórnenda og stjórnarmanna fyrirtækja.
Þetta hefur hins vegar breyst á undanförnum árum og benti Chris á nokkur dæmi þess efnis. Nefndi hann m.a. úttektir prófessor Bernand Black á gengi fyrirtækja og stjórnarháttum þeirra í Rússlandi, Kóreu og Mexíkó. Ein niðurstaða Black var sú að gengi fyrirtækja sem fylgdu góðum stjórnarháttum var allt að 160% hærra en þeirra sem töldust ekki fylgja þeim.
Annað dæmi var frá Brasilíu þar sem sérstök kauphöll (Novo Mercado) hefur verið sett á laggirnar þar sem aðeins er hægt að öðlast skráningu ef fyrirtæki fylgja góðum stjórnarháttum. Árangur þeirrar kauphallar og svo hinnar hefðbundnu hefur verið mældur. Helstu niðurstöður þeirra mælinga, að sögn Chris, eru þær að þau fyrirtæki sem skráð eru í nýju kauphöllina sýna aukna skilvirkni og meira gagnsæi, taka betur á vandamálum sem koma upp og síðast en ekki síst þá er fjármagnskostnaður þeirra lægri en þeirra sem skráð eru í hefðbundnu kauphöllina. Af þessum dæmum að ráða taldi Chris að jákvæð áhrif góðra stjórnarhátta á rekstur fyrirtækja væru betur og betur að koma í ljós.
Þátttakendur í pallborði ráðstefnunnar, þar sem m.a. var rætt um með hvaða hætti hægt væri að koma að úrbótum í stjórnarháttum fyrirtækja, voru þau Vilhjálmur Bjarnason, framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta, Þóranna Jónsdóttir, framkvæmdastjóri samskipta- og viðskiptaþróunar Auðar Capital, Salvör Nordal forstöðumaður siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, Dr. Eyþór Ívar Jónsson, forstöðumaður rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti við Háskóla Íslands og Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.
Með ráðstefnunni var ætlunin að minna á mikilvægi góðra stjórnarhátta innan fyrirtækja og stofnana hér á landi, en VÍ, SA og Kauphöllin gáfu á síðasta ári út nýja og endurbætta útgáfu af leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja.
Frekari upplýsingar um ráðstefnuna veitir Haraldur I. Birgisson, yfirlögfræðingur Viðskiptaráðs, í síma 510-7100 eða haraldur@vi.is.