Í s.l. viku gaf Viðskiptaráð út skoðun þar sem farið er yfir þá vankanta sem nýlega hafa verið innleiddir í annars hagfellt íslenskt skattkerfi. Til að byggja upp trausta atvinnustarfsemi liggur fyrir að umhverfi til rekstrar þarf að vera hagfellt og ekki síður stöðugt. Mikilvægt er því að draga úr því ósamræmi sem hefur skapast í skattlagningu hérlendis miðað við það sem gerist í samkeppnislöndum Íslands.
Það er almenn skoðun innan atvinnulífsins að á Íslandi hafi skattlagning rekstrar verið hagkvæm með tiltölulega lágum og breiðum skattstofni með fáum frádráttarliðum. Nýlegar breytingum á skattkerfinu ganga þvert á forsendur atvinnuuppbyggingar á Íslandi, sem getur reynst skaðlegt efnahagsþróuninni til lengri tíma litið.
Uppbygging alþjóðlegra samstæðna óhagkvæmari hér á landi
Meðal þess sem þarf að breyta til að bæta skattkerfið eru reglur um skattskil og jöfnun yfirfæranlegs taps hvað varðar söluhagnað í tengslum við endurskipulagningu fyrirtækja. Vegna reglna um jöfnun yfirfæranlegs taps fyrri ára á móti söluhagnaði er fyrirtækjasamstæðum í endurskipulagningu, sem gera upp í erlendri mynt, gert nær ómögulegt að færa til félög innan samstæðunnar. Þetta stafar af því að við slíkan flutning skapast nær ávallt hagnaður vegna veikingar krónunnar og skattalegrar meðferðar söluhagnaðar í skattskilum.
Þessi hagnaður er undanþeginn skatti, en ef fyrirtæki hafa yfirfæranlegt tap frá fyrri árum þá þurfa þau að jafna það á móti hagnaðinum. Fyrirtækin eru því að greiða skatt fyrir í því formi að nýta uppsafnað tap. Fyrir vikið þá hafa fyrirtækin ekki tök á að jafna umrætt tap á móti hefðbundnum rekstrartekjum sínum. Þessi regla gerir það því að verkum að uppbygging alþjóðlegra samstæðna verður óhagkvæmari hér á landi en víða erlendis.
Nánar um málið hér.