Viðskiptaráð Íslands

Peningamálafundur VÍ: Umræða um framtíðina óskast

Í morgun Viðskiptaráð árlegan Peningamála fund sinn á Hilton Reykjavík Nordica í tilefni af útgáfu peningamála Seðlabankans og bar fundurinn yfirskriftina Peningastefna í hafti: Flýtur krónan aftur? Á fundinum fór Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, yfir stöðu efnahagsmála í tilefni af útgáfu Peningamála og svaraði spurningum fundargesta að erindi loknu. Þórður Friðjónsson, forstjóri Nasdaq OMX Iceland stýrði fundinum. Í pallborðsumræðu milli fulltrúa Seðlabankans og atvinnulífsins tóku þátt Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, Ásgeir Jónsson, aðalhagfræðingur Arion banka, Benedikt Jóhannesson, ritstjóri Vísbendingar og Kristín Pétursdóttir, forstjóri Auðar Capital

Í upphafi ræðu sinnar sagði Már Guðmundsson að það væri orðin áralöng hefð fyrir því að Viðskiptaráð standi fyrir morgunverðarfundi skömmu eftir að Seðlabankinn hefur gefið út nýja þjóðhags- og verðbólguspá snemma vetrar. „Seðlabankinn hefur fagnað þessu frumkvæði og gerir enn. Það er mikilvægt að geta útskýrt sem best þær ákvarðanir sem teknar eru í peningamálum og þessi fundur hefur alltaf verið mjög gott tækifæri til þess. Það á ekki hvað síst við nú þegar peningastefnan er mótuð við mjög flóknar aðstæður,“ segir Már. Ræðu Más má nálgast hér.

Gjaldeyrishöft frá 1926 til 1995 - Eðlilegt að hafa áhyggjur af hægagangi
Að loknu erindi Más fóru fram kröftugar pallborðsumræður sem Þórður Friðjónsson forstjóri Nasdaq OMX á Íslandi stýrði. Þórður benti á að eðlilegt væri að hafa áhyggjur af því hvernig miði með afnám hafta sérstaklega í ljósi þess að höft hafi verið viðvarandi hérlendis allt frá 1926 til ársins 1995 í einhverju formi. Hann benti jafnframt á að í ágúst á næsta ár, þegar lagaheimild fyrir gjaldeyrishöftum rennur út, þá væru nærri þrjú ár liðin frá upptöku haftanna. Hann taldi að svo virtist sem enn lengra væri nú í afnám hafta en talið hefur verið að undaförnu.

Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, sagði að meira þyrfti til en skilyrta áætlun um afnám hafta þegar núverandi heimild rennur út. En hann taldi þó ekki miklar líkur á því að höftin yrðu til langframa. Hann benti á í því samhengi að við búum við alþjóðlega samninga í gegnum EES sem leyfi ekki höft á fjármagnsflutninga. Hinsvegar gætum við nú búið við gjaldeyrishöft sökum áherslu AGS á þau í samstarfi þeirra við Íslensk stjórnvöld.

Benedikt Jóhannesson, ritstjóri Vísbendingar, gantaðist með það að hann væri handviss um að afnám hafta væri á næsta leiti þar sem endurskipulagning heimila og fyrirtækja hafi lengi staðið fyrir dyrum, þó enn bóli ekkert á aðgerðum, og því hljóta gjaldeyrishöftin að falla í sama flokk. Á ögn alvarlegri nótum bætti hann við að það myndi taka mjög langan tíma að vinda ofan af núverandi gjaldeyrishöftum og þeim stóru vandamálum sem stjórnvöld standa frammi fyrir. Hann teldi það í raun ekki gerlegt án nýrrar ríkisstjórnar.

Umræða um framtíðina óskast
Umtalsverð umræða var á fundinum um hvað tæki við að loknum gjaldeyrishöftum sem og framtíðarskipulagi peningamála. Kristín Pétursdóttir, forstjóri Auðar Capital, lýsti m.a. yfir áhyggjum sínum á því hvað tæki við að loknum höftum. Ljóst væri að mikill kostnaður yrði fólginn í afnámi hafta en „það að losna við höft er ekki endir alls“. Hún benti á að pressan fyrir afnámi hafta væri í raun meiri frá innlendum aðilum en erlendum þar sem íslenskir aðilar væru ekki jafn þolinmóðir og margir erlendir fjárfestar. Kristin sagði einnig að mikill kostnaður væri fólginn í því að halda úti krónunni og horfa þyrfti fram á veginn og huga að langtímalausnum í gjaldeyris- og peningamálum. Kristín lýsti því yfir að hún teldi upptöku evru einu raunhæfu leiðina í þeim málum og stefna ætti að því.

Benedikt tók undir orð Kristínar og benti jafnframt á að núverandi stefna í peningamálum gengi ekki til lengdar. „Það er ekki spurning um hvenær við losnum við höftin heldur hvenær við losnum við krónuna“.

Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, sagði að það yrði að lokum þjóðin sem fengi að ráða hvaða peningastefna væri í landinu. Ef þjóðin segir nei í atkvæðagreiðslu um inngöngu í Evrópusambandið þyrfti að bæta framkvæmd peningastefnunnar. Í því samhengi nefndi Arnór að efla þyrfti svokölluð þjóðhagsleg varúðartæki sem og notkun á fjármálareglum til að styrkja fjárlagagerðina. Tekur Arnór þar með undir þau sjónarmið sem Viðskiptaráð hefur haldið fram að undaförnu um að mikilvægt væri að styrkja fjárlagagerðina til muna.

Kostnaður eigin myntar vanmetinn
Ásgeir Jónsson, aðalhagfræðingur Arion banka, sagði að kostnaður við eigin mynt hafi í raun verið vanmetinn undanfarin ár. Það kæmi sér einnig á óvart að ekki væru háværari raddir um upptöku evru innan atvinnulífsins þar sem miklir hagsmunir væru til staðar.

„Þrátt fyrir neikvætt tal þá hefur mikill árangur náðst,“ segir Ásgeir. Of mikill tími hafi farið í að ræða um fortíðina þó það tal nái jafnan einvörðungu aftur um þrjú til fjögur ár og því til stuðnings benti Ásgeir á að hrunið ætti sér mun lengri sögu sem vert væri að horfa til.

Hann benti einnig á að sögulega þá voru gjaldeyrishöft hert eftir bankahrun snemma á síðustu öld. Þá hafi staðið til að afnema höftin eins skjótt og mögulegt var en þau hafa staðið umtalsvert lengur en til stóð sökum þess að stefna stjórnvalda á þeim tíma hafi unnið gegn afnámi þeirra. Mikilvægt væri að stjórnvöld nú séu meðvituð um áhrif aðgerða sinna á áframhald gjaldeyrishaftanna.

Opnunarávarp Finns Oddssonar má finna hér.

Umfjöllun um fundinn:
Vb.is - Ef þjóðin segir nei þá þarf að bæta peningastefnuna
Vb.is - Afnema þarf gjaldeyrishöft eins fljótt og auðið er
Visir.is - Svigrúm til frekari vaxtalækkana
Visir.is - Gjaldeyrishöftin verða mögulega framlengd
Mbl.is - Fjárfesting ekki minni frá stríðslokum
Mbl.is - Bólueinkenni á skuldabréfamarkaði
Ruv.is - Ekki verði farið hægar í niðurskurð

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024