Efnahags- og skattanefnd hefur lagt fram breytingar á lögum vegna greiðsludreifingar aðflutnings- og vörugjalda fyrir gjalddaganna 15. mars og 15. apríl. Málið hefur verið afgreitt sem lög og tekur því gildi í dag.
Í máli formanns nefndarinnar á Alþingi í gær kom fram að samstaða væri í nefndinni um að ekki yrði um frekari dreifingar gjalddaga að ræða og þá hefur fjármálaráðuneytið nú þegar lýst því yfir að ekki verði frekari dreifingar af þeirra hálfu. Má því gera ráð fyrir að sú greiðsludreifing sem ofangreint frumvarp leggur til verði sú síðasta og eftir það tímamark megi gera ráð fyrir hefðbundnu fyrirkomulagi greiðslu aðflutnings- og vörugjalda. Fyrirtæki hafa því tíma núna til að undirbúa að snúið verði aftur til fyrra horfs.
Viðskiptaráð fagnar þessari viðleitni efnahags- og skattanefndar til að létta undir með innflutningsaðilum enda hefur þetta úrræði skipt þau miklu. Það er von ráðsins að efnahagslegur bati muni eflast svo ekki verði þörf á frekari úrræðum í þessa átt.
Tengt efni: