Viðskiptaráð Íslands

Smiðja verðmætasköpunar

2011.05.12 vþ skýrsla forsíðaÞessi grein er ein aðsendra greina í skýrslu Viðskiptaráðs Íslands til árlegs Viðskiptaþings. Skýrslan í ár ber heitið Tökumst á við tækifærin - atvinnulíf til athafna og pdf útgáfu skýrslunnar má nálgast á þessari slóð.


2011.05.16 Eyþór Ívar JónssonÁrið 2008, í miðju fjármála- og efnahagshruni, var lagður grunnur að nýrri hugsun varðandi uppbyggingu í atvinnulífinu. Þetta var gert undir merkjum Klaks sem er fyrirtæki sem aðstoðar frumkvöðla og fyrirtæki í nýsköpun og verðmætasköpun. Hugsunin var, að ástæða þess að ekki fleiri vaxtarfyrirtæki dafna á Íslandi er að einhverju leyti vegna skorts á þekkingu á rekstri og uppbyggingu slíkra fyrirtækja. Fæstir átta sig á að sú hugmyndafræði sem því tengist er að mörgu leyti ólík þeirri hugmyndafræði sem hefðbundin viðskiptafræði byggir á, þetta er fræði sem byggir á sköpun en ekki hámörkun. Hugsunin var að með frumkvæði, frumleika og framtíðarsýn einstaklinga væri hægt að búa til flóru af nýjum og áhugaverðum fyrirtækjum sem gætu skapað atvinnu og verðmæti á Íslandi. Verkefnið, sem unnið er í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og Nýherja, var kallað Viðskiptasmiðjan – Hraðbraut nýrra fyrirtækja.

Frá stofnun hafa um sextíu fyrirtæki komið í Viðskiptasmiðjuna til skemmri og lengri tíma til þess að afla sér þekkingar á rekstri og uppbyggingu nýrra og ört vaxandi fyrirtækja. Mikilvægasti ávinningurinn felst hins vegar ekki í fjölda fyrirtækja eða fjárfestinga heldur þeirri hugmyndafræði og þekkingu sem frumkvöðlar og stjórnendur þessara fyrirtækja hafa öðlast. Vonin er að þessi þekking verði smám saman almennari og viðurkenndari og hafi þannig víðtæk áhrif.

Uppspretta tækifæra
Viðskiptasmiðjan er ekki eini magnari þessarar hugmyndafræði en margir kölluðu eftir slíkri sköpun í kjölfar efnahagshrunsins. Í sinni einföldustu mynd snýst grunnferli sköpunar um að nýta hæfni og þekkingu eða undirbúning annars vegar og aðstæður hins vegar sem uppsprettu tækifæra. Með frumlegri nálgun er hægt að tengja undirbúning og aðstæður og móta viðskiptahugmyndir og framtíðarsýn nýrra fyrirtækja. Oft eru það ólíklegar tengingar sem skapa áhugaverðustu tækifærin. ORF líftækni býr til ensím fyrir snyrtiiðnaðinn með ræktun þeirra í byggi, Kerecis býr til gervihúð úr fiskroði og Carbon Recycling International framleiðir orku úr mengun frá stóriðju. Uppruni þessara fyrirtækja er skipulögð hugmyndavinna, rannsóknir og prófanir. Þetta er nýsköpun.

Árið 2010 flutti Háskólinn í Reykjavík úr Ofanleiti 2 í Vatnsmýrina og eftir stóð tóm skólabygging. Ákveðið var að búa til kraftmikið umhverfi fyrir hagnýta fræðslu, sprotastarf og skapandi greinar og nýta þannig húsið áfram til stuðnings menntunar og nýsköpunar. Þetta eru markmið Sjálfseignastofnunar Viðskiptaráðs Íslands um viðskiptamenntun, sem verkefnið O2. Hugmyndin er að með samstarfi ólíkra aðila í húsinu verði til samfélag sem getur af sér nýstárlega tækifæri sem annars hefðu ekki orðið til. O2 getur þannig orðið leikvangur nýsköpunar í menntun á Íslandi.

Sú vinna sem tengist sprotafyrirtækjum á Íslandi eftir hrun fer ekki að skila verulegum arði fyrr en eftir 5 til 10 ár, tíma tekur að gera nýjar viðskiptahugmyndir að veruleika. Óþolinmæði Íslendinga gerir það stundum að verkum að við eigum erfitt með að byggja upp og hugsa til lengri tíma. Þyrpingar eins og O2 geta verið uppspretta nýrra viðskiptahugmynda og umbreytinga. Þær geta verið blandaðar eða einsleitar til þess að skila ávinningi en atriði að hugmyndafræðin sem leiðir einingarnar saman sé skýr sköpun. Þær þurfa líka að vera í stærra tengslaneti rannsókna, fjárfesta, sérfræðinga, fjölmiðla og dreifileiða til þess að dafna sem kerfi. Þrátt fyrir talsverðan áhuga á nýsköpun á Íslandi og marga hagsmunaaðila er heildarmyndin flókin. Stofnanavæðing nýsköpunar mistókst og nú er nauðsynlegt að hugsa kerfið upp á nýtt með framtíðina að leiðarljósi.

Ný framtíðarsýn er að Klak sé verkvangur nýsköpunar atvinnulífsins. Hugmyndin er að búa til svipaðan farveg eins og búinn hefur verið til fyrir frumkvöðla sem vilja stofna eigin fyrirtæki, fyrir fyrirtæki, háskóla og stofnanir sem vilja nýta opna nýsköpun og aðra nýsköpunarferla til þess að skapa ný verðmæti og viðskipti. Forsenda þess að nálgunin skili árangri er að stærri fyrirtæki landsins taki þátt í  verkefninu og hjálpi til við að byggja þennan verkvang og virkja hæfni og auðlindir sem fyrirtæki byggja á og búi til ný verðmæti. Slíkur verkvangur gæti haft mikil áhrif á sköpun atvinnu, þekkingar og verðmæta á næsta áratug.

Eyþór Ívar Jónsson, Klak

Tengt efni

Björn Brynjúlfur í stjórn HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024