Viðskiptaráð Íslands

Arfleifð Oz

2011.05.12 vþ skýrsla forsíðaÞessi grein er ein margra í skýrslu Viðskiptaráðs Íslands til árlegs Viðskiptaþings. Skýrslan í ár ber heitið Tökumst á við tækifærin - atvinnulíf til athafna og pdf útgáfu skýrslunnar má nálgast á þessari slóð.


2011.05.17 Stefán Baldur Árnason2011.05.17 margrét dóra ragnarsdóttirOZ er gott dæmi um mikilvægi nýsköpunar þar sem sú þekking og reynsla sem verður til, leitast við að viðhalda sjálfri sér, og endurnýjar sig við breyttar aðstæður. Jafnvel má halda því fram að í hugbúnaðargeiranum hafi ævintýrið OZ markað upphaf nýsköpunarferlis sem enn er ekki séð fyrir endann á. 

OZ sýndi fram á að á Íslandi væri hægt að byggja upp fyrirtæki í hugbúnaðarþróun á mjög metnaðarfullum hugmyndum. Reynsla þeirra sem unnu hjá og fylgdust vel með OZ er þó líklega mikilvægasta afurð fyrirtækisins. OZ sýndi fram á að nýsköpun í hugbúnaðarþróun var raunhæfur möguleiki um leið og það veitti þátttakendum dýrmæta reynslu í því hvað þarf að gera til þess ná árangri. Reynslu sem OZ nýtti sér sjálft til þess að stofna nokkur sprotafyrirtæki og starfsmenn þess gerðu einnig síðar.

Upphafið
Í upphafi var OZ dæmigert sprotafyrirtæki. Það er stofnað af nokkrum guttum (um og undir tvítugu) sem voru í raun með frekar ónákvæma áætlun. Kannski ofsögum sagt að kalla það áætlun, það var meira löngun til að reka fyrirtæki sem nýtti sér nýjustu tækni til samskipta. Það sem vann aðallega með þeim var drifkraftur og óbilandi trú á að allar dyr stæðu opnar og að allt væri mögulegt.

Fyrstu árin könnuðu þeir þrívíddartæknina og sáu fyrir sér hvernig hægt væri að nota hana á vefnum. Meðan allir voru enn með innhringimótöld var þetta gríðarlega framsýn hugsun. Þeir unnu þrívíddarverkefni fyrir bæði Intel  og Ericsson og í framhaldi af því tókst þeim að selja Ericsson þá hugmynd að samskipti á internetinu væru framtíðin.

Hugbúnaðarþróun
Ein forsenda árangurs OZ þegar á leið var fjármögnunin eða öllu heldur aðgangur að þolinmóðu fjármagni. Fjármögnun var skilgreind sem forsenda þróunar, og nauðsynlegur hluti af rekstri og viðgangi fyrirtækisins.
Hugbúnaðarframleiðsla OZ var að mestu rekin fyrir erlent fé og megin hluti þess kom frá Ericsson sem greiðslur fyrir þróunar- og rannsóknarvinnu. Þetta var aðeins eitt af mörgum sambærilegum rannsóknar- og þróunarverkefnum Ericsson sem beindust að því að þróa nýja tækni og nýta tækni á nýjan hátt. Ericsson áleit slík verkefni og fjárfestingu nauðsynlega til að viðhalda samkeppnisforskoti sínu og vera í nánum tengslum við nýjustu og framsæknustu hugmyndastraumana.

Framlag Ericsson var ekki eingöngu í formi peninga til að fjármagna framleiðsluna heldur var um eiginlegt samstarf að ræða þar sem starfsmenn Ericsson miðluðu af reynslu sinni af því að koma hugmynd í gegnum vöruþróunarferli. Þarna lærðu starfsmenn OZ þann aga sem þarf til að skila gæðahugbúnaði sem hannaður var fyrir mikla notkun. Slíka reynslu er nánast ómögulegt að öðlast á örmarkaðnum Íslandi.

Stórfyrirtæki reka svona verkefni í hundraðavís um allan heim. Fyrir þeim er það ekki tiltökumál að flest þessara verkefna ganga aldrei upp eða að þau séu látin víkja þegar hart er í ári. Það var í kjölfar þess að virði hlutabréfa Ericsson hrapaði á vormánuðum 2001 sem að ákveðið var að klippa á frekari fjárfestingar til OZ jafnvel þó að verkefnið væri á lokastigum. Og þó að stórfyrirtæki velti því ekki lengi fyrir sér, gerir svona aðgerð út um sprotafyrirtæki sem ekki er komið með vöru sína á markað. Í kjölfar þessa lauk starfsemi OZ á Íslandi. En grunnurinn var góður, nógu sterkur í raun til að byggja á nýtt fyrirtæki, sem hluti stofnenda og starfsmanna OZ gerði í Montreal í Kanada. Það fór svo ekki hátt þegar fyrirtækið var selt til Nokia í október 2008.

Hin erlendu áhrif
Líklega hefur samstarfið við Ericsson verið mesta gæfa OZ – og ræður þar mestu sú þekking og reynsla sem varð OZ aðgengileg í samstarfinu. Að einhverju leyti gjörbreyttist starfsumhverfið og vinnulagið þar sem hinn erlendi risi gerði allt aðrar og miklu meiri kröfur um formfestu, skjalagerð og almennan aga í vinnubrögðum en áður hafði þekkst hjá fyrirtækinu.

Til að byrja með var hugbúnaðardeildin lítil en eftir því sem að verkefnum fjölgaði og þau urðu flóknari varð ljóst að það þurfti meiri mannskap. Veikasti punkturinn í lífi hvers hugbúnaðarfyrirtækis er þegar þróunarstörfum fjölgar. Fram að því kemst fyrirtækið upp með óformlega ferla og umhverfi vegna þess að það er svo mikill samgangur milli starfsmanna. Um leið og þessi tengsl rofna verður meiri verkaskipting, verkferlar verða mikilvægir og ekki síður formlegt utanumhald um þróunina.

2011.05.17 Oz ættartré Oz ættartréð. Smelltu til að stækka.

Sá hópur sem vann hjá OZ og upplifði það hvernig hugmynd verður  að vöru í hugbúnaðargeiranum hefur leitast við að endurtaka þann leik, miðla af reynslu sinni og leita uppi nýjar hugmyndir. Þetta þykir merkilegt sakir þess að yfirleitt þykir eðlilegt í sprotabransa að fólk haldi upplýsingum fyrir sig af ótta við að aðrir nái árangri á þeirra kostnað, þ.e. framkvæmi hugmyndirnar þeirra. Það er kannski einkennandi fyrir þá sem hafa kynnst því hversu langur vegur er frá hugmynd að veruleika, að þeir átta sig á því að það er mun meira upp úr því að hafa að þiggja og gefa alla þá hjálp sem möguleg er fremur en að múra sig af einir með hugmyndina. Þetta birtist vel í því  sem kalla mætti ‘ættartré’ OZ.

Það er eðli sprotafyrirtækja í hugbúnaðar- og hátæknigeiranum að vera tilraunastarfsemi. Yfirleitt er alls óvíst að sú hugmynd sem lagt er af stað með í upphafi sé lífvænleg. Til þess þarf ótal margt að ganga upp: Mótækilegur markaður,  rétt tækni, gott teymi og agaður rekstur. Mörgum fjárfestum í þessum geira þykir eðlilegt að ein af hverjum tíu hugmyndum gangi upp og verði að verðmætri eign.

Engu að síður skapa allir þessir sprotar verðmæti með tilvist sinni. Á meðan þeir lifa skapa þeir ársverk, starfsmenn fá laun, þeir skila sínum opinberu gjöldum áfram til samfélagsins. Og þá er ótalin sú reynsla og þekking sem verður til hjá starfsmönnum og nýtist áfram þó á nýjum vettvangi sé.

Menning OZ byggir á því að ræða hugmyndir, styðja við þær, leggja til og fræða, hvort sem hugmyndir eru eigin eða annarra. Gildi þess hefur margsannað sig jafnt í ofangreindum fyrirtækjum og öðrum sem notið hafa starfskrafta OZara. Þannig gætir áhrifa OZ enn í íslenskum upplýsingatækniiðnaði. Beinar og óbeinar tengingar má finna við fjölmörg íslensk upplýsingatæknifyrirtæki sem í dag skila hundruðum ársverka til íslensks samfélags.

Það er arfleifð OZ.

Margrét Dóra Ragnarsdóttir og Stefán Baldur Árnason, fyrrverandi OZ-arar

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024