Viðskiptaráð Íslands

OECD telur brýnt að auka aga í ríkisfjármálum

OECDÍ nýrri skýrslu OECD um stöðu íslenska hagkerfisins má finna fjölmargar ábendingar um hvernig bæta megi stjórn ríkisfjármála. Bent er á að þrátt fyrir að gripið hafi verið til ráðstafana til að styrkja fjárlagagerð í tengslum við samstarf Íslands við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS) þá séu þær aðgerðir ekki nægjanlegar. Þegar því samstarfi lýkur þá verður hömlum stjórnvalda á útgjöld létt og hætt við að aukinn slaki myndist í stjórn ríkisfjármála. OECD telur að brýnt sé að auka aga í fjármálum hins opinbera með því að innleiða fjármálareglur til lengri tíma.

Viðskiptaráð hefur undanfarin ár fjallað um nauðsyn þess að bæta umgjörð ríkisfjármála. Í skýrslu ráðsins frá því í júní 2008 „Útþensla hins opinbera: Orsakir, afleiðingar og úrbætur“ er t.a.m. lagt til að bindandi útgjaldarammi verði tekinn upp til að styrkja fjárlagagerðina og auka aga í opinberum útgjöldum. Frá þeim tíma hefur VÍ bent á fleiri mögulegar úrbætur, t.d. að tekið verði til skoðunar að innleiða:

  1. Heildarmat á fjárþörf hins opinbera (svokölluð núllgruns-fjárlagagerð)
  2. Bindandi útgjaldaþak til lengri tíma
  3. Útgjaldaramma sem miðast við fastan nafnvöxt
  4. Drög að útgjaldarömmum
  5. Bætta áætlanagerð

Ítarlegri umfjöllun um tillögurnar má sjá hér.

Samstaða um bætt vinnubrögð
Ágreiningur um áherslur í því hvort eigi að ráðast eigi í aukna tekjuöflun eða útgjaldastjórnun ætti almennt ekki að koma í veg fyrir samstöðu á öðrum sviðum. Til að mynda ættu flestir að geta sammælst um mikilvægar úrbætur á ferli og framkvæmd fjárlaga, sem talsverðir annmarkar hafa verið á undanfarin ár. Slíkar úrbætur snúa að farsælli úrlausn stjórnvalda á stefnu sinni í ríkisfjármálum til lengri og skemmri tíma - þar fara hagsmunir allra saman. Viðskiptaráð hvetur því til þess að umræða um framtíðarskipan opinberra fjármála verði efld og að litið verði m.a. til fyrrgreindra tillagna OECD í þeim efnum.

Sjá ítarlegri umfjöllun í skoðun ráðsins frá því í júní 2010, „Ríkisfjármál- Samstaða um bætt vinnubrögð“ og skýrslu til Viðskiptaþings 2010, „Fjármál hins opinbera - aðrar leiðir færar“

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024