Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað nú í morgun að halda vöxtum bankans óbreyttum. Standa daglánavextir bankans í 5,5% og innlánsvextir í 3,5%. Ákvörðun peningastefnunefndar er á skjön við spár nokkurra greiningaraðila, en búist hafði verið við 25-50 punkta hækkun. Líkt og fram kemur í tilkynningu nefndarinnar þá voru það lakari horfur í heimsbúskapnum, minni verðbólga í ágúst en spár gerðu ráð fyrir og áframhald á styrkingu krónunnar og sem gerðu henni kleift að halda vöxtum óbreyttum.
Í yfirlýsingunni er þó tekið fram að verðbólguhorfur til lengri tíma bendi til að við hæfi sé að halda áfram að draga úr slaka peningastefnunnar. Vísar nefndin þá til ákvörðun sinnar frá því í ágúst, þegar ákveðið var að hækka vexti um 25 punkta. Því kunni að vera nauðsynlegt að hækka vexti frekar til að sporna við verðbólgu, en nefndin telur að lítil hætta sé á að hófleg vaxtahækkun stöðvi efnahagsbatann.
Ákvörðun Seðlabankans er skiljanleg, annars vegar í ljósi stöðu íslensks atvinnulífs og óværu á erlendum mörkuðum, og hins vegar vegna áhyggna bankans af vaxandi verðbólgu. Of margt hefur orðið þess valdandi að bata hagkerfisins hefur seinkað, en hagfellt vaxtaumhverfi er veigamikill þáttur þess að efla fjárfestingu, auka umsvif og hraða bataferlinu. Óbreyttir vextir eru því mun heppilegri en hærri. Hinsvegar eru fyrirheit um mögulega hækkun vaxta síðar verulegt áhyggjuefni og undirstrika mikilvægi sameiginlegrar baráttu gegn verðbólgu á næstu mánuðum og misserum.“ segir Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.