8. apríl 2009
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka stýrivexti bankans um 1,5% og standa þeir nú í 15,5%. Viðskiptaráð Íslands fagnar þessari lækkun en telur þó nægt svigrúm til frekari lækkunar. Hjöðnun verðbólgu hefur verið skörp enda eru umsvif og eftirspurn í hagkerfinu á hröðu undanhaldi. Húsnæði fer nú lækkandi, velta í smásölu og aðrir hagvísar sem endurspegla innlenda eftirspurn benda til mikils samdráttar, atvinnulausum fjölgar hratt og launaþrýstingur er lítill. Eini óvissuþátturinn hvað varðar verðbólguþróun virðist því vera gengi krónunnar og áhrif hennar á verðbólguvæntingar markaðarins.
Höftum á fjármagnsflutningum var ætlað að koma í veg fyrir útflæði fjármagns og gera Seðlabanka Íslands kleift að byggja upp gjaldeyrisforða sinn samhliða hagstæðri þróun í vöruskipta- og þjónustujöfnuði. Þetta hefur ekki gengið sem skyldi enda hafa gloppur á lögunum leitt til þess að ýmsir aðilar hafa farið í kringum höftin. Þetta er til marks um hve óskilvirkt stýritæki höft eru gegnumsneytt, enda hefur reynslan sýnt að aðlögunarhæfni markaðarins er iðulega meiri en stjórnvöld gera ráð fyrir.
Háum vöxtum er væntanlega ætlað að draga úr hvata markaðsaðila til að fara á sveig við höftin og létta þannig á þrýstingi á gengi krónunnar. Hér er þó um tvíeggja sverð að ræða enda leiða hærri stýrivextir til aukinna vaxtagreiðslna úr landi og þar með aukins þrýstings á gengi krónunnar. Í ljósi þess að gjaldeyrishöft eru ekki ætluð sem varanleg lausn ættu stjórnvöld í samvinnu við Seðlabanka Íslands að leggja á það þunga áherslu að móta trúverðuga áætlun um hvernig sköpuð verði skilyrði til að hægt verði að aflétta þeim og koma á eðlilegum gjaldeyrismarkaði í kjölfarið. Gagnsæ og skýr framtíðarstefna getur myndað mikilvæga kjölfestu í væntingum markaðsaðila og stuðlað að frekari trúverðugleika hagkerfisins sem og krónunnar.
Þrátt fyrir þau vandkvæði sem höft af flestu tagi skapa atvinnu- og efnahagslífi, hvetur Viðskiptaráð til þess að markaðsaðilar starfi eins og kostur er í anda þeirrar gjaldeyrislaga sem nú er við líði. Víki margir þar frá mun það skaða hagsmuni heildarinnar vegna neikvæðra áhrifa á gengi krónunnar.