Í rökstuðningi Seðlabankans fyrir stýrivaxtahækkun í morgun segir að hagvöxtur í ár og á næsta ári verði líklega meiri en áður var talið en verðbólga minni. Samkvæmt spá bankans hafa hagvaxtarhorfur glæðst töluvert frá því hann mat stöðu efnahagsmála í ágúst og gerir bankinn nú ráð fyrir 3,1% hagvexti í ár og 2,3% á næsta ári en engu að síður verður að mati bankans slaki í efnahagslífinu fram á árið 2014. Verðbólgan verður um 4% í ár og á næsta ári en hjaðnar í 2,5% um svipað leyti og slakinn verður horfinn úr þjóðarbúskapnum. Þetta bendir til þess að verðbólgan stafi af öðrum þáttum en innlendri eftirspurn. Tilraunir til að afstýra verðbólgu með vaxtahækkunum eru því líklegri til að draga úr efnahagsbatanum þegar síst skyldi.
Mikil óvissa er um verðbólguhorfur að mati bankans. Versnandi horfur á erlendum mörkuðum munu draga úr verðbólguþrýstingi en á móti þeim vega innlendar kostnaðarhækkanir og hugsanleg áhrif þeirra á verðbólguvæntingar. Vaxtahækkuninni er því sennilegast beint gegn verðbólguvæntingum frekar en innlendri eftirspurn. Verðlagsþróun hefur undanfarið og mun á næstu misserum ráðast meira af framkvæmd gjaldeyrishafta og væntingum um afnám þeirra ásamt framvindu skuldaúrlausnar heimila og fyrirtækja og áhrifa hennar á ráðstöfunarfé og innlenda eftirspurn.
Erfitt er að sjá hvernig vaxtabreytingar Seðlabankans muni hafa áhrif á verðlagsþróun nú. Sparnaður er að miklu leyti þvingaður þar sem einstaklingar og fyrirtæki vinna í því að draga úr skuldsetningu.
Vaxtahækkun við þessar aðstæður virðist því fyrst og fremst táknræn, til að minna á að Seðlabankinn hafi ekki gleymt því hlutverki sínu að sporna við verðbólgu þótt hún hafi rokið upp vegna veikingar gengisins, hækkunar hrávöruverðs og launahækkana fyrr á árinu. Þá einkennir veruleg bjartsýni spár bankans um hagvöxt, sem erfitt er að sjá hvaðan á að koma. Enn og aftur virðist því sem bankinn taki trúverðugleika peningastefnunnar fram yfir nauðsyn þess að koma til móts mótdrægt umhverfi heimila og atvinnulífs, þar sem fjárfesting er allt of lítil og atvinnuleysi of mikið. Hærri vextir viðhalda því ástandi.“ segir Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.
Seðlabankinn hélt vöxtum óbreyttum í september þegar hann hækkaði verðbólguspánna. Nú lækkar hann verðbólguspá og hækkar vextina, sem vekur nokkra furðu. Í ljósi ákvörðunar Seðlabankans nú, við aðstæður þar sem aðrir Seðlabankar lækka eða halda vöxtum óbreyttum, er fullt tilefni til að taka ramma íslenskrar peningastefnu til alvarlegrar umræðu. Það er einmitt efni
Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem haldinn verður í Hörpu föstudaginn 4. nóvember 2011, þar sem Már Guðmundsson seðlabankastjóri verður aðalræðumaður.