Viðskiptaráð Íslands

Sala Íslandsbanka mikilvægt skref

Viðskiptaráð fagnar áformum ríkisstjórnarinnar um að ljúka sölu á eftirstandandi eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka og telur sölu ríkiseigna í fjármálakerfinu nauðsynlega til að auka hagkvæmni og samkeppni. Með faglegri framkvæmd og aðkomu erlendra fagfjárfesta má hámarka virði fyrir ríkið og draga úr áhættu. Sala Íslandsbanka er mikilvægt skref í átt að minna opinberu eignarhaldi, og hvetur Viðskiptaráð stjórnvöld til að hefja undirbúning við sölu Landsbankans.

Viðskiptaráð þakkar fyrir tækifærið til að koma á framfæri athugasemdum um ofangreint frumvarp sem er ætlað að auka líkurnar á aðkomu stórra erlendra fagfjárfesta og þannig auka eftirspurn og vægi meginmarkmiðs laganna um hagkvæmni. Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn á fyrri stigum og vísar til þess eftir því sem við á. [1]

Ráðið fagnar áformum ríkisstjórnarinnar um að ljúka sölu á eftirstandandi eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka enda er hún í samræmi við gildandi fjárlög, fjármálaáætlun og stjórnarsáttmála. Ráðið er fylgjandi því að selja hlut ríkisins með almennu útboði og þeirri nálgun að leitast við að auka hagkvæmni og tryggja þátttöku erlendra fjárfesta.  Viðskiptaráð gerir ekki athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins en telur mikilvægt að framkvæmd sölunnar sé eins og best verður á kosið, hún verði fagleg, standist rýni og tryggi ríkinu hagstætt verð fyrir hlut sinn í bankanum. Að mati Viðskiptaráðs hníga sterk rök að því að ríkið eigi að ljúka við sölu á Íslandsbanka, sem og losa enn frekar um víðtækt eignarhald í öðrum atvinnugreinum.

Í hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið kemur fram að á Íslandi sé til staðar styrk umgjörð regluverks og eftirlit miði að því að tryggja heilbrigt eignarhald með kröfum til virkra eigenda og takmörkunum á áhrifum eigenda. Rök hnígi að því að draga úr víðtæku eignarhaldi ríkisins í fjármálafyrirtækjum til þess að draga úr áhættu, fórnarkostnaði og neikvæðum samkeppnisáhrifum. Þá sé mikilvægt að stjórnvöld hugsi heildstætt um framtíðareignarhald þar sem fjölbreytt eignarhald sé til þess fallið að ná sátt og draga úr áhættu. Í hvítbókinni eru jafnframt farið yfir áhættuþætti sem einkenna fjármálafyrirtæki og hvernig þeir geti haft áhrif á rekstur þeirra. [2] Með því að binda fjármuni hins opinbera í bankarekstri er þessi áhætta sett á herðar almennings og hann látinn bera tjónið ef af verður. Opinbert eignarhald á fyrirtækjum í atvinnurekstri er einnig síður til þess fallið að ýta undir hagræðingu, framþróun og aðra þá þætti sem stuðla að framleiðnivexti og gagnast þannig bæði viðskiptavinum bankanna og samfélaginu í heild.

Eignarhald íslenska ríkisins er á skjön við vestræn ríki

Fá ríki eru jafn umsvifamikil og Ísland þegar kemur að eignarhaldi hins opinbera í fyrirtækjum á sviði bankaþjónustu (mynd 1). Árið 2023 var hlutdeild banka sem íslenska ríkið fer með meira en 50% miðað við heildareignir bankanna en í hátekjuríkjum var hlutfallið aðeins 5% árið 2020. Sé miðað við banka sem íslenska ríkið fer með yfir fimmtungshlut í er hlutdeildin hærri, eða yfir 70%.

Ísland sker sig einnig úr hvað varðar þróun á eignarhaldi á viðskiptabönkum. Samhliða alþjóðavæðingu fjármálakerfisins voru margir ríkisbankar einkavæddir og árið 2008 var hlutdeild banka í ríkiseigu 6%. [3] Í kjölfar fjármálakreppunnar snérist þróunin við og hlutdeild banka í ríkiseigu náði hámarki í 9% árið 2014. Síðar fór hlutdeildin aftur lækkandi og stóð í 5% árið 2020. Önnur ríki voru þannig fljótari að losa um eignarhald á fjármálafyrirtækjum í kjölfar fjármálakreppunnar því á Íslandi var þróunin ekki með sama hætti og fór hlutdeildin vaxandi til ársins 2016.

Umfangsmikið eignarhald íslenska ríkisins á kerfislega mikilvægum bönkum felur ekki aðeins í sér áhættu vegna reksturs heldur er það einnig til þess fallið að raska samkeppni með alvarlegum hætti. [4] Áframhaldandi sala eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka er þess vegna mikilvægt skref í að færa Ísland nær þjóðunum sem við berum okkur gjarnan saman við.

Að lokum vill Viðskiptaráð ítreka fyrri áskoranir til stjórnvalda að hefja undirbúning á sölu á hlut í Landsbankanum svo slíkt útboð geti farið fram fljótt í kjölfar sölu á eftirstandandi eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka. Þannig væri unnt að draga enn frekar úr opinberu eignarhaldi í bankakerfinu hérlendis. 

Viðskiptaráð leggur til að frumvarpið nái fram að ganga.

Nánar má lesa um umsögnina hér

Tilvísanir

1 Sjá hér umsögn Viðskiptaráðs um drög að frumvarpi til breytinga á lögum um ráðstöfun eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka (febrúar 2025): Slóð: https://vi.is/umsagnir/ljuka-skuli-soluferli-islandsbanka

2 Fjármála- og efnahagsráðuneytið (desember 2018): „Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið.” Slóð: https://www.stjornarradid.is/library/02-Rit--skyrslur-og-skrar/hvítbók-vefútgáfa_11122018.pdf

3 IHEID (mars 2023): “Bank Ownership Around the World”. Slóð: https://repec.graduateinstitute.ch/pdfs/Working_papers/HEIDWP07-2023.pdf

4 Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins á máli nr. 9/2016. Slóð: https://www.samkeppni.is/media/akvardanir2016/Akvordun-9-2016-Framsal-Glitnis-hf.-a-95-hlutafjar-Islandsbanka-hf.-til-Rikissjods-Islands.pdf

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024