Á Viðskiptaþingi, sem nú stendur yfir, voru fimm fyrrum formenn og velunnarar Viðskiptaráðs sæmdir nafnbótinni Heiðursfélagi Viðskiptaráðs. Heiðursfélagi Viðskiptaráðs er sæmdarheiti sem veitt er mönnum er hafa lagt sérstaklega mikið af mörkum í þágu viðskiptafrelsis og framfara í atvinnulífinu. Katrín Pétursdótir, forstjóri Lýsis, tilkynnti um útnefninguna og sagði m.a:
Á langri sögu Viðskiptaráðs hefur margt áunnist. Gildin hafa ávallt verið þau sömu, eins og formaður gat um hér á undan, og þau eiga ekki síður við í dag en fyrir 95 árum. Og það vill stundum gleymast, svona í svartnættishjali og skrítinni pólítík, að sú umgjörð atvinnulífs sem við höfum byggt hér á Íslandi hefur skapað okkur afar góð lífskjör. Þetta er hinsvegar allt mannanna verk og þeir eru margir sem lagt hafa hönd plóg og búið okkur sem á eftir ganga frjósaman jarðveg til ræktunar.“
Okkur þykir við hæfi nú, þegar verk gærdagsins eru rýnd og höft fyrri tíma hafa aftur færst óþægilega nærri, að heiðra þá sem ruddu brautina og lögðu grunninn að því viðskipafrelsi sem við búum nú við. Þeir sem nú hljóta sæmdarheitið eiga það sameiginlegt að hafa lagt sérstaklega mikið af mörkum í þágu viðskiptafrelsis og framfara í atvinnulífinu.“
Þeir sem hlutu sæmdarheitið Heiðursfélagi Viðskiptaráðs Íslands að þessu sinni eru:
-
Davíð Scheving Thorsteinsson; Davíð fæddist 4 janúar 1930. Eftir nám snéri Davíð sér að rekstri fyrirtækja, m.a. Smjörlíki og Sól, en með árunum snéri hann sér svo meir og meir að baráttu fyrir bættu umhverfi og viðskiptafrelsi á íslandi. Davíð hefur alla tíð verið virkur þátttakandi og setið í stjórnum hjá ýmsum atvinnulífssamtökum ásamt stjórnarsetu í ýmsum fyrirtækjum í gegnum árin. Hann hefur í gegnum tíðina unnið afskaplega mikið með Viðskiparáði, komið að ýmsum verkefnum og verið ráðinu innan handar, m.a. verið formaður nefndar um góða stjórnarhætti. Hann hefur unnið ómetanlegt starf fyrir ráðið en sérstaklega sem brautryðjandi í atvinnustarfsemi á Íslandi, með viðskiptafrelsi að leiðarljósi.
-
Haraldur Sveinsson; Haraldur fæddist 15. júní árið 1925. Eftir nám hóf Haraldur störf hjá timburversluninni Völundi. Hann varð síðar framkvæmdastjóri þeirrar verslunar en tók svo við sem framkvæmdastjóri Árvakurs hf., útgáfufélags Morgunblaðsins, árið 1968. Á árunum 1968 til 1970 gegndi Haraldur stöðu formanns Viðskiptaráðs auk þess að gegna öðrum trúnaðarstörfum fyrir ráðið, en hann sat m.a. í sambandsstjórn Vinnuveitendasambands Íslands og var formaður stjórnar Lífeyrissjóðs blaðamanna um árabil.
-
Hjalti Geir Kristjánsson, Hjalti Geir fæddist 21. ágúst árið 1926. Hjalti starfaði lengst af við fyrirtækið Kristján Sigurgeirsson hf., sem hann tók við af föður sínum. Hann var ennfremur stjórnarformaður GKS um árabil. Hann gegndi formennsku fyrir ráðið á árunum 1978 til 1982. Auk þess að sinna formennsku sinnti Hjalti ýmsum trúnaðarstörfum á sínum ferli til viðbótar við aðild sína að ráðinu. Hann er stofnandi FHÍ, félags íslenskra húsgagnaarkitekta, og var formaður þess félags í um áratug. Hann var stjórnarformaður Almennra trygginga hf. í 15 ár og sat í stjórn Félags íslenskra iðnrekenda og Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins. Hjalti Geir lét af störfum sem formaður ráðsins árið 1982.
-
Jóhann J. Ólafsson; Jóhann er fæddur 8. apríl 1935. Hann tók við fyrirtækinu Jóhann Ólafsson & Co. af föður sínum. Faðir Jóhanns hafði áður setið í stjórn ráðsins. Jóhann hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum, en hann hefur m.a. setið í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna og í stjórn Félags íslenskra stórkaupmanna. Hann var ennfremur í stjórn Húss Verslunarinnar og formaður stjórnar þess frá 1983. Jóhann var formaður Viðskiptaráðs frá árinu 1986 til ársins 1992.
-
Ragnar S. Halldórsson; Ragnar fæddist 26. júní árið 1929. Hann starfaði við ýmis verkfræðistörf og var m.a. framkvæmdastjóri verkfræðideildar hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Eftir að hafa starfað hjá svissneska álfyrirtækinu Alusuisse um tíma tók Ragnar við störfum sem forstjóri ÍSAL. Ragnar mótaði og lagði grunn að uppbyggingu og starfsháttum stóriðju á Íslandi enda álverið í Straumsvík hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Hann varð stjórnarformaður ÍSAL eftir að hann lét af störfum sem forstjóri og gegndi því starfi um árabil. Ragnar var einn af stofnendum Alþjóðaviðskiptaráðsins árið 1993, og sat í stjórn þess í áratug. Ragnar var formaður Viðskiptaráðs á árunum 1982 til 1986.
Viðskiptaráð óskar þeim félögum til hamingju með útnefninguna og um leið er þeim þakkað ómetanlegt framlag í þágu atvinnulífsins og samfélagsins alls.