Fyrir Alþingi liggja nú nokkur frumvörp tengd fjárlögum næsta árs. Viðskiptaráð hefur skilað umsögnum til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis við tvö þeirra og reifað markvisst þá afstöðu sína að núverandi skattastefna sé skaðleg atvinnulífi og heimilum og þar með rekstri ríkissjóðs. Frumvörpin eru því miður áframhald af þeirri stefnu, en með þeim er enn bætt við þær 100 breytingar sem þegar hafa verið gerðar á skattkerfinu undanfarin ár.
Yfirlýst rök að baki skattastefnunni eru að miklu leyti skiljanleg, enda brýn þörf að draga úr halla á rekstri ríkissjóðs og tekjuöflun ein tveggja leiða til þess. Þegar rýnt er hins vegar í heildarmynd tekjuhliðar ríkisfjármála síðastliðin ár má m.a. sjá fjögur varhugaverð þemu:
Af þessum ástæðum og fjölmörgum öðrum hefur Viðskiptaráð ítrekað lýst þeirri skoðun sinni að núverandi skattastefna sé skaðleg atvinnulífi og heimilum og þar með rekstri ríkissjóðs . Ef eingöngu er horft á áhrif stefnunnar á stöðu ríkissjóðs má segja að niðurstaða ríkisreiknings fyrir árið 2010 renni stoðum þar undir. Samkvæmt reikningnum var frumjöfnuður neikvæður um rúma 84 ma. kr., sem er 45 mö. kr. meiri halli en fjárlög og fjáraukalög gerðu ráð fyrir. Þar spilar eiginfjárframlag ríkissjóðs til Íbúðalánasjóðs stóran þátt, eins og reglulega hefur verið haldið á lofti af hálfu stjórnvalda. En ef tekið er tillit til sambærilegs óreglulegs liðar á tekjulið fjárlaga, n.t.t. Avens samkomulagsins, má sjá að frumjöfnuður er eigi að síður neikvæður um 68,7 ma. kr. á sama tímabil og heildartekjur ríkissjóðs 3,5% undir áætlunum í stað 0,2% yfir. Skattastefnan bar því ekki þann árangur sem stefnt var að árið 2010 fyrir rekstur ríkissjóðs.
Auk þess má sjá skýr merki um skaðsemi tekjuöflunaraðgerða stjórnvalda á atvinnulíf og heimili ef litið er til þess að atvinnuvegafjárfesting og einkaneysla, forsendur hagvaxtar og atvinnusköpunar, eru enn við söguleg lágmörk. Þá má nefna fjöldamargar aðrar birtingarmyndir núverandi skattastefnu, s.s. fjölgun erfðafjárskýrslna vegna fyrirframgreidds arfs, minni akstur einstaklinga um hringveginn, aukinn fjármögnunarkostnað fyrirtækja, aðgerðir eldri borgara til að tryggja hag sinn, brottflutning fyrirtækja, ráðgjöf erlendra skattasérfræðinga, aukna framleiðslu heimabruggs o.s.frv. Með fjárlagafrumvarpi næsta árs og þessum frumvörpun er hoggið í sama knérunn að mati Viðskiptaráðs.
Tengt efni: