Viðskiptaráð Íslands

Viðskiptaþing 2012: Úttekt á hagvaxtar- og lífskjarahorfum á Íslandi

Ræðumenn(lítil)Á Viðskiptaþingi, sem nú stendur yfir, ræddi Hreggviður Jónsson, nýkjörinn formaður Viðskiptaráðs, um mikilvægi áætlunar fyrir Ísland um verðmætasköpun og lífskjör. Hreggviður sagði m.a. að án viðvarandi hagvaxtar myndu lífskjör hér á landi dragast fljótt aftur úr þeim löndum sem búa við stöðugan hagvöxt og verðmætasköpun.

Þá fjallaði Hreggviður um stöðu Íslands í alþjóðlegu samhengi og sagði allt framlag Íslendinga þurfa að vera samkeppnishæft. Til þess þyrfti öflugt atvinnulíf sem býr yfir sveigjanleika og starfar í stöðugu rekstrarumhverfi sem fæli í sér hvata til að sækja fram, skapa störf og bæta lífskjör. Því miður einkenndist umgjörð atvinnurekstrar í dag hins vegar af óvissu, stöðnun og skorti á framtíðarsýn um verðmætasköpun. Íslendingar hefðu þó alla burði og þekkingu til að færa það til betri vegar.

Hreggviður ræddi jafnframt um skort á samstarfi stjórnvalda og atvinnulífs, sem þyrfti að bæta, og sagði m.a.„Við hljótum að geta verið sammála um það markmið að efla lífskjör í landinu. Í því felst að hámarka þarf verðmætasköpun atvinnulífs. Við verðum að vinna saman að mótun aðlaðandi framtíðarsýnar fyrir komandi kynslóðir. Á einföldu máli, þá þurfum við að sameinast um það hvert við viljum fara og hvernig við viljum komast þangað.“

Að lokum tilkynnti Hreggviður um að hið alþjóðlega ráðgjafafyrirtæki Mckinsey & Company hefði ákveðið að eigin frumkvæði og á eigin kostnað að ráðast í vinnu við mótun framtíðarstefnu fyrir Ísland. Þessi vinna hefst nú á vormánuðum og áætluð verklok eru um komandi áramót. Vinna Mckinsey mun einkum snúa að þremur þáttum. Í fyrsta lagi verður lagt mat á styrkleika landsins og helstu forsendur vaxtar í hagkerfinu, í öðru lagi verða helstu ógnanir sem standa endurreisn hagkerfisins fyrir þrifum kortlagðar og í þriðja lagi verða lagðar fram tillögur um framtíðaráherslur í atvinnulífinu til að tryggja verðmætasköpun og bætt lífskjör til framtíðar.

Hreggviður sagði að atvinnulíf, háskóla, stjórnvöld o.fl. þyrftu að koma að verkefninu og treysti hann á aðstoð þeirra.

McKinsey var stofnað árið 1926 í Bandaríkjunum af James O. McKinsey. Nú rúmum 85 árum síðar er fyrirtækið með um 90 skrifstofur í yfir 50 löndum um allan heim og þjónustar m.a. tvo þriðju af þeim félögum sem skráð eru í Fortune 1.000. Fyrirtækið hefur unnið margvíslegar úttektir af þessu tagi m.a. fyrir Svíþjóð, Finnland og Danmörku.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024