Mikill áhugi er hjá íslenskum fyrirtækjum á viðskiptum milli vestnorrænu landanna, en nú hafa Færeyska-íslenska og Grænlensk-íslenska viðskiptaráðið tekið til starfa. Þau eru ellefta og tólfta millilandaráðið á alþjóðasviði Viðskiptaráðs Íslands.
Stofnfundur í Nuuk
Grænlensk-íslenska viðskiptaráðið var stofnað í lok október í Nuuk á Grænlandi. Ísland og Grænland hafa átt mikil samskipti í gegnum tíðina í orkumálum, byggingarframkvæmdum, landbúnaði, sjávarútvegi, ferðaþjónustu og ýmsum öðrum greinum atvinnulífsins.“ sagði Sigurður Skagfjörð Sigurðsson hjá VJI sem kjörinn var formaður ráðsins.
Aðrir í stjórn eru: Árni Gunnarsson hjá Flugfélag Íslands, Brian Buus Petersen hjá Vinnuveitendasambandi Grænlands, Gylfi Sigfússon hjá Eimskip, Hans Gerstrøm hjá Usisaat, Henrik Leth hjá Polar Seafood, Hermann Sigurðsson hjá Ístak, Preben Kold Larsen hjá Permagreen Grønland og Steen Montgomery-Andersen hjá Tele Greenland.
Úrslit í samkeppni um merki ráðsins voru kynnt og var það íslenski arkitektinn Guðni Valberg sem átti vinningstillöguna. Merkið er samblanda af íslenska og grænlenska fánanum. Útliti fána landanna tveggja er blandað saman og er formið á merkinu að sama skapi byggt á skjaldarformi og býr þannig til V-laga form sem er tenging í viðskiptaráðið.
Stofnfundur í Þórshöfn
Stofnfundur Færeyska-íslenska viðskiptaráðsins var haldinn í síðustu viku í Þórshöfn í Færeyjum. Um 40 fyrirtæki gerðust stofnaðilar. Ráðinu er ætlað að styrkja enn frekar samskipti þjóðanna á sviði verslunar og viðskipta, vera vettvangur til að stofna til nýrra kynna og tækifæra sem og almennra skoðanaskipta.
Á fundinn sem haldinn var laugardaginn 10. nóvember mættu tæplega 40 manns, en þá voru 19 færeysk og 20 íslensk fyrirtæki þegar búin að skrá sig til leiks. Á fundinum voru kosin í stjórn ráðsins frá Færeyjum þau Marita Rasmussen hjá félagi atvinnurekenda, Debes Petersen hjá Kemilux, Eyðun Joensen hjá P/F Poul Hansen, Jóhanna á Bergi hjá Faroe Ship og Hendrik Egholm hjá Magn. Frá Íslandi voru kosnir þeir Gísli Gíslason hjá Faxaflóahöfnum, Hjálmar Waag Árnason hjá Keili, Ingvar Már Gíslason hjá Norðlenska og Þorgeir Baldursson hjá Kvos/Oddi. Formaður ráðsins er Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, en framkvæmdastjóri ráðsins er Kristín S. Hjálmstýsdóttir.
Úrslit í samkeppni um hönnun á merki ráðsins voru kynnt og var færeyski arkitektinn Eyðun Eliasen hlutskarpastur og hlaut í verðlaun ferð til Íslands fyrir tvo og skerpukjötslæri. Merkið sem er í fánalitum landanna táknar öldur hafsins sem tengir löndin tvö saman. Í lok formlegs fundar flutti Þórður Bjarni Guðjónsson, aðalræðismaður Íslands í Færeyjum ávarp ásamt Kjartani Kristiansen, fyrrverandi framkvæmdastjóra útflutningsráðs Færeyja.
Nánari upplýsingar um ráðin veitir Kristín S. Hjálmtýsdóttir, forstöðumaður alþjóðasviðs.