Viðskiptaráð Íslands

Frekari tekjuöflun í fjárlögum næsta árs

Í vikunni skilaði meirihluti fjárlaganefndar áliti sínu á fjárlagafrumvarpi næsta árs. Heilt yfir er gert ráð fyrir auknum gjöldum uppá 7,7 ma. kr., að ótöldu nýsamþykktu framlagi til Íbúðalánasjóðs uppá 13 ma. kr. Þá er gert ráð fyrir aukningu tekna um 9,2 ma. kr. m.a. vegna aukinna arðgreiðslna. Þá var frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum lagt fram í gær þar sem tekjuöflunaraðgerðir voru útfærðar nánar. Má þar nefna:

  • Hækkun virðisaukaskatts á gistiþjónustu í 14% frá og með 1. maí 2013
  • Hækkun almenns tryggingagjalds um 0,3%
  • Hækkun tóbaksgjalds um 20%
  • Hækkun fjársýsluskatts úr 5,45% í 6,75%
  • Hækkun vörugjalds á bílaleigubíla
  • Áframhaldandi úttekt á séreignarsparnaði
  • Hækkanir á ýmsum krónutölusköttum um 4,6%
  • Áframhaldandi álagningu kolefnisgjalds og gjalds á sölu á heitu vatni
  • Framlengingu raforkuskatts um þrjú ár

Skýrt er tekið fram í frumvarpinu að markmið um jafnvægi í ríkisfjármálum náist ekki nema með frekari tekjuöflun. Það gengur þvert gegn yfirlýsingum um annað í lok síðasta árs, eins og fjallað var um í nýlegri skoðun Viðskiptaráðs, Ríkisfjármál: Betri staða en áætlanir gerðu ráð fyrir? Erfitt er að lesa annað úr þessu en að árangurinn í ríkisfjármálum sé ekki sá sem stefnt var að, þrátt fyrir reglulegar fréttir í þá veru.

Samhliða þessum hækkunum verða þó gerðar nokkrar breytingar til batnaðar sem snúa að afnámi sérstaks afdráttarskatts á vaxtagreiðslur til erlendra aðila, eðlilegri skattlagningu afleiðusamninga þar sem verðbréf eru undirliggjandi verðmæti, hagkvæmari skattlagningu vegna tímabundinnar vinnu starfsmanna íslenskra fyrirtækja erlendis og lækkun á atvinnutryggingagjaldi.

Viðskiptaráð mun skila inn umsögn við frumvarpið og eru félagsmenn hvattir til að hafa samband við starfsmenn ráðsins vilji þeir koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024