Mikilvægt er að afnema opinbera styrki til stjórnmálasamtaka og samhliða því rýmka tækifæri þeirra til að fjáröflunar. Það myndi draga úr stofnanavæðingu stjórnmálanna og auka hvata flokkanna til að halda úti öflugu grasrótarstarfi.
Það fer eflaust ekki fram hjá neinum að kosningar eru á næsta leiti. Auglýsingar dynja nú á fólki í ljósvakamiðlum og kosningaáróður er allsráðandi á samfélagsmiðlum. Allt kostar þetta fjármuni, en það kann að koma sumum á óvart að bróðurpartur þessara auglýsingaherferða er fjármagnaður af skattgreiðendum.
Með lagasetningu um starfsemi stjórnmálaflokka árið 2006 var þeim framboðum sem fá a.m.k. einn þingmann kjörinn eða hljóta yfir 2,5% atkvæða tryggt árlegt framlag úr ríkissjóði. Árið 2018 voru framlögin ríflega tvöfölduð og hækkuðu þá úr tæpum 290 milljónum upp í tæpar 650 milljónir króna á ári.
Stofnanavæðing stjórnmálanna
Þessi stofnanavæðing stjórnmálanna hefur veikt tengingu þeirra við samfélagið. Með því að fjármagna stjórnmálaflokka með almannafé draga stjórnvöld úr þörf þeirra til að viðhalda virku starfi og rækta tengsl við kjósendur. Flokkar þurfa því ekki lengur að halda úti grasrótarstarfi þar sem fólk sem ekki starfar við stjórnmál leggur tíma sinn og fjármuni í að berjast fyrir ákveðnum hugsjónum.
Styrkjakerfið dregur einnig úr getu nýrra stjórnmálaframboða til að hasla sér völl. Þeir flokkar sem öfluðu sér kjörfylgis í síðustu kosningum fá sjálfkrafa opinbera styrki í fjögur ár þar á eftir. Þessum styrkjum geta flokkarnir safnað upp og notað í auglýsingaherferðir fyrir næstu kosningabaráttu. Ný framboð sem ekki njóta þessarar meðgjafar standa þar höllum fæti.
Vandamálið verður ennþá verra þegar reglur um styrki til stjórnmálasamtaka eru skoðaðar. Samhliða opinberum framlögum voru tækifæri til fjáröflunar hjá einstaklingum og fyrirtækjum verulega takmörkuð. Í dag mega lögaðilar styrkja stjórnmálaflokka um að hámarki því sem nemur 550 þúsund krónum á ári og einstaka frambjóðendum er að hámarki heimilt að þiggja 400 þúsund krónur á ári frá hverjum aðila.
Þetta þýðir að í kosningum standa ný framboð andspænis sitjandi stjórnmálaflokkum sem hafa hlotið 2.600 milljónir króna í opinber framlög á kjörtímabilinu. Nýjum framboðum er því einungis heimilt að safna upphæð frá hverjum lögaðila sem nemur 0,02% af þeirri opinberu meðgjöf sem sitjandi stjórnmálaflokkar njóta.
Stjórnmál snúast um hugsjónir
Ákjósanlegri leiðir eru færar í fjármögnun stjórnmálasamtaka. Með því að rýmka reglur um hámarksstyrki lögaðila til framboða verulega mætti leggja opinbera styrkjakerfið af. Samhliða þeirri breytingu yrði áfram tryggt fullt gagnsæi um fjármögnun stjórnmálasamtaka, þannig að öllum sé ljóst hvaðan fjármunir þeirra koma.
Í kosningaáttavita Viðskiptaráðs fyrir þessar kosningar má sjá að fjórir flokkar eru fylgjandi því að afnema opinbera styrki til stjórnmálasamtaka og tveir eru hlutlausir. Við hjá ráðinu bindum vonir við að ný ríkisstjórn ráðist í þessar umbætur. Skattgreiðendur þyrftu þá ekki lengur að standa undir starfsemi stjórnmálasamtaka sem berjast fyrir hugmyndafræði sem þegar hefur verið hafnað í kosningum og gengur jafnvel gegn gildum þeirra sem skattinn greiða. Hugsjónastarf, líkt og starfsemi stjórnmálasamtaka er, verður þá aftur fjármagnað og unnið af þeim sem á þær hugsjónir trúa.
Ragnar Sigurður Kristjánsson, sérfræðingur á hagfræðisviði Viðskiptráðs
Greinin birtist fyrst á Vísi.is 28. nóv. 2024