Viðskiptaráð Íslands

Kerfisbreytingar og ábyrgð í ríkisfjármálum lykill að hagvexti

Á árlegum peningamálafundi Viðskiptaráðs nú í morgun fór Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, yfir efnahagsþróun síðustu 5 ára og stöðuna í dag. Auk Más ávarpaði Hreggviður Jónsson, formaður Viðskiptaráðs, fundinn og í pallborði tóku til máls þau Ásdís Kristjánsdóttir, Friðrik Már Baldursson, Gylfi Arnbjörnsson, Helga Valfells, Styrmir Guðmundsson og Þórarinn G. Pétursson, en Gísli Hauksson stýrði fundinum.

2013.11.21_peningamalafundur MarFjölþættar ástæður kreppunnar
Í ræðu Más kom m.a. fram að íslenskt efnahagslíf hafi verið á leiðinni í samdrátt haustið 2008 óháð alþjóðlegu fjármálakreppunni. Það hafi endurspeglast í spá Seðlabankans árið 2006 þar sem gert var ráð fyrir samdrætti árið 2009. Haustið 2008 komu í raun fjórir þættir saman; ofþensla áranna á undan, áhrif gjaldeyriskreppunnar á fyrri hluta árs 2008, fall bankanna og alþjóðlegur samdráttur. Már sagðist ekki viss um að sagan myndi sýna að fall bankanna hafi verið mesti efnahagshnykkurinn af þessum fjórum þáttum.

Már sagði að þrátt fyrir þetta hafi Ísland frá árinu 2011 vaxið tvöfalt hraðar en helstu viðskiptalönd þess og að greina mætti framlag tiltekinna atvinnugreina til þeirrar þróunnar. Hins vegar hafi þjóðartekjur ekki vaxið í líkingu við landsframleiðsluna sem væri vitaskuld áhyggjumál. Þá stæði þjóðhagslegur sparnaður ekki undir ákjósanlegu fjárfestingarstigi að svo stöddu. Gæta þyrfti raunsæis í hagvaxtarvæntingum. Hagvöxtur upp á 4-5% að jafnaði getur ekki verið sjálfbær til langframa og væri því að mestu glígja frá fyrri tímum.

Laun og ríkisfjármál endurspegli undirliggjandi aðstæður
Már kom jafnframt inn á þá þætti sem hann taldi einkenna núverandi stöðu. Nefndi hann þar að búið væri að vinna á slakanum í hagkerfinu, en það stæði enn frammi fyrir skæðum greiðslujafnaðarvanda og verðbólguvanda. Hann nefndi að verðbólga myndi halda áfram að lækka, en þróunin yrði hæg og verðbólgumarkmiðin myndu ekki nást fyrr en í kringum árið 2016. Miklu máli skipti að launaþróun yrði í samræmi við undirliggjandi aðstæður og ríkisfjármálastefnan myndi einkennast af ábyrgð. Ef svo yrði myndi verðbólgumarkmið bankans nást fyrr og hagvöxtur verða meiri.

Að lokum sagði Már tvö helstu verkefnin framundan þau að auka þjóðhagslegan sparnað og efla framleiðni. Til þess þyrftu að koma til ákveðnar kerfisbreytingar og vísaði Már þar m.a. í skýrslu McKinsey & Company um Ísland og þeirrar vinnu sem hefur verið í gangi á þeim grunni þ.e. á vegum Samráðsvettvangs um aukna hagsæld.

Líflegar umræður í pallborði
Í pallborði fundarins kom Gylfi Arnbjörnsson m.a. inn á það að gengi íslensku krónunnar skýri nær öll frávik frá nafnlaunabreytingum síðustu ára, þ.e. slakan kaupmátt þrátt fyrir launahækkanir. Þá talaði Gylfi fyrir upptöku fastgengisstefnu a.m.k. á meðan verið væri að vinna úr höftunum. Þórarinn G. Pétursson sagði þetta þó virka í báðar áttir þ.e. launahækkanir ættu sinn þátt í þróun gengisins. Aðalatriðið væri að hafa áhrif á verðbólguvæntingar sem okkur hefur reynst erfitt.

2013.11.21 Peningamalafundur panell

Þá sagði Ásdís Kristjánsdóttir að ekki hafi verið innstæða fyrir launahækkununum 2011 og að nú væru skammtímasamningar heppilegastir í stöðunni. Grunnvandinn væri slakur trúverðugleiki en þar spilaði skortur á framtíðarsýn stóra rullu og ýmis teikn væru á lofti vegna stórra óleystra verkefna framundan s.s. afnám hafta. Friðrik Már Baldursson nefndi að afnámi hafta myndi fylgja alls kyns áhætta, s.s. skapa þrýsting á gengið, hækka ávöxtunarkröfu á markaði og veikja kjör ríkissjóðs. Það besta í stöðunni til að draga úr þessari áhættu væri því að lækka skuldir ríkisins.

Styrmir Guðmundsson tók undir með Friðriki og sagði þessa þætti ekki benda til annars en að vextir muni hækka þegar fram líða stundir. Það ætti þó ekki að hafa áhrif á erlenda fjárfestingu, sem er það sem Ísland þarf mest á að halda, heldur skipti trúverðugleiki á innviði hagkerfisins þar mestu. Helga Valfells sagði jafnframt að erlendir fjárfestar væri reiðubúnir að koma til Íslands ef þeir hefðu trú á vöru viðkomandi fyrirtækja. Engu að síður þyrfti að huga að efnahagslegum hvötum til að spara og fjárfesta hérlendis.

Undir lok pallborðsumræðna kom Þórarinn G. Pétursson m.a. inn á herkostnaðinn af því að hafa eigin gjaldmiðil, sem Seðlabankinn fjallaði nýlega um í ítarlegri skýrslu. Hann sagði núverandi fyrirkomulag peningamála hafa sína kosti og galla sem þyrfti að ræða ítarlega en því miður væri lítill áhugi á þessu umræðuefni.

Tengdar fréttir 

Tengt efni:

Hér að neðan má sjá myndir frá peningamálafundinum í Flickr myndasafni Viðskiptaráðs:

Peningamálafundur Viðskiptaráðs 2013: Hver er staðan 5 árum eftir efnahagshrun?

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024