Viðskiptaráð Íslands

Verðbólga afleiðing mikils launaþrýstings

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að verðbólgan á Íslandi sé frábrugðin þeirri sem herjar á Evrópu. Hér á landi sé verðbólgan afleiðing mikils launaþrýstings. Þetta var meðal þess sem kom fram í erindi Ásgeirs á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem fram fór í gær.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri

Uppselt var á viðburðinn að þessu sinni sem fram fór í Háteigi á Grand Hótel. Yfirskrift fundarins var „Liggja leiðir til lágra vaxta?“. Viðskiptaráð stendur að Peningamálafundi í nánu samstarfi við Seðlabanka Íslands en um árlegan viðburð er að ræða.

Verðmætasköpun og verðstöðugleiki fari saman

Andri Þór Guðmundsson, formaður Viðskiptaráðs, hélt opnunarávarp á fundinum og lagði í ræðu sinni áherslu á mikilvægi verðmætasköpunar og stöðugleika í hagkerfinu. Hann hvatti stjórnvöld til að vinna með peningastefnunni, draga úr halla ríkisfjármála og forðast að veikja framboðshlið hagkerfisins með þungu regluverki.

Andri benti á að ný ríkisstjórn þurfi að forgangsraða efnahagslegum stöðugleika og að vinnumarkaðurinn verði að taka mið af framleiðniþróun. Að lokum undirstrikaði hann að verðmætasköpun og verðstöðugleiki fari saman og hvatti til aðgerða sem tryggja samkeppnishæfni og bætt lífskjör á Íslandi.

Andri Þór Guðmundsson, formaður Viðskiptaráðs.

Verðbólga á Íslandi afleiðing mikils launaþrýstings

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri flutti meginerindi fundarins. Hann benti á að verðbólga á Íslandi væri afleiðing mikils launaþrýstings og að verðbólgan hér á landi sé mjög frábrugðin þeirri sem herjar á Evrópu, þar sem orkuverðshækkanir voru helsta orsökin.

Fram kom í máli Ásgeirs að hann telji að Íslendingar geri sér ekki nægilega grein fyrir því hversu mikill hagvöxtur hefur verið hér á landi undanfarin ár, en íslenska hagkerfið hefur vaxið um 20% frá heimsfaraldrinum. Hann benti á að í mörgum Evrópulöndum hafi orðið varanleg lækkun launa, á meðan íslenskur vinnumarkaður einkennist af miklum launahækkunum. Að hans mati skapar þessi þróun þráláta verðbólgu og háa vexti hér á landi.

Ásgeir fór á fundum yfir spá bankans á áframhaldandi hjöðnun verðbólgu og að ársmeðaltal verðbólgu á árinu 2026 verði 2,8%.

Líflegar umræður í pallborði

Síðasti dagskrárliður fundarins voru pallborðsumræður undir stjórn Björns Brynjúlfs Björnssonar, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs. Þátttakendur í pallborði voru Birna Einarsdóttir, stjórnarformaður Iceland Seafood International, Lárus Welding, rekstrarstjóri Stoða, Una Jónsdóttir, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, og Þórarinn G. Pétursson, varaseðlabankastjóri peningastefnu.

Skemmtileg umræða skapaðist í pallborði þar sem Lárus Welding hvatti meðal annars stjórnendur Seðlabankans til að láta meira í sér heyra varðandi útþenslu hins opinbera.

Björn Brynjúlfur, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, stýrði pallborðsumræðum.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024