Laugardaginn 16. nóvember síðastliðinn var Kauphallardagurinn haldinn í fyrsta sinn, en það voru Háskólinn í Reykjavík og NASDAQ OMX Iceland (Kauphöllin) sem stóðu fyrir viðburðinum. Boðið var upp á fjölda ókeypis örnámskeiða og fræðslu um málefni tengd fjármálum og sparnaði fyrir alla aldurshópa og því gátu allir gestir fundið sér eitthvað við sitt hæfi.
Af því tilefni tók Viðskiptaráð Íslands, í samstarfi við Kauphöllina og Stofnun um fjármálalæsi, saman fræðslubækling í tengslum við örfyrirlesturinn „Fjárfesting á markaði: taktu meðvituð skref.“ Þar fór Baldur Thorlacius hjá Kauphöllinni yfir nokkra þætti sem gott er að hafa í huga áður en fjárfest er á verðbréfamarkaði. Þá má geta þess að bæði Landsbankinn og VÍB höfðu bæklinginn sem hluta af sínu kynningarefni á Kauphallardeginum.
Markmiðið með útgáfunni er að auka upplýsingaflæði til áhugasamra smáfjárfesta og hvetja þá til að taka ígrundaðar ákvarðanir. Bæklingurinn hefur eðlilega ekki að geyma tæmandi upptalningu á þáttum sem þarft er að hafa í huga heldur snertir á þeim helstu. Í bæklingnum er m.a. fjallað um undirbúning fjárfestinga, lög og reglur, sölu verðbréfa og lagðar fram nokkrar gullnar reglur sem eiga við um allt fjárfestingaferlið.
Það er von útgáfuaðilanna að bæklingurinn komi jafnt smáum fjárfestum og fjármálafyrirtækjum sem og öðrum sem hafa umsýslu með fjármunum fjárfesta að góðum notum.
Bæklinginn í heild sinni má nálgast hér og á sérstakri vefsíðu Kauphallarinnar má jafnframt nálgast bæklinginn með tilteknu ítarefni. Frekari upplýsingar veitir Haraldur I. Birgisson aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.
Tengdar fréttir: