Er markmiðið með útlitsbreytingum ÁTVR að fela uppruna og eðli áfengiseinokunar ríkisins? Leyfist ríkinu nú það sem öðrum hefur verið óheimilt, þ.e. að auglýsa áfengi og að auka aðgengi almennings að áfengi?
Sigríður Á. Andersen lögfræðingur VÍ veltir þessu fyrir sér.
__________________________
Barátta fyrir almennu frelsi í viðskiptum, á hvaða sviði sem er, hefur verið hlutverk Verslunarráðs Íslands frá stofnun ráðsins árið 1917. Af nógu hefur verið að taka í öll þessi ár. Ríkisfyrirtæki hafa verið starfrækt í ótrúlegustu greinum atvinnulífsins til lengri eða skemmri tíma; verksmiðjur, stofnanir og verslanir. VÍ fagnar því að nýlega var síðasta verksmiðja ríkisins seld. Þá telur VÍ jákvæðar þær breytingar sem orðið hafa á fjármálamarkaði með sölu ríkisbankanna. Hins vegar furðar VÍ sig á því að ríkið skuli enn standa í verslunarrekstri, með tvær verslanir; Fríhöfnina og ÁTVR.
Einhverjir stjórnmálamenn grípa stundum til þeirra röksemda til stuðnings núverandi fyrirkomulagi áfengisverslunar að almenningur sé svo ánægður með þjónustu ÁTVR. Þjónustan hafi jú verið að batna undanfarið og aðgengi manna að útsölustöðum að aukast. Af hverju að rugga bátnum, spyrja þessir stjórnmálamenn?
Nú virðist vera svo komið að mati Verslunarráðs að almenningur, a.m.k. þeir sem ekki fylgjast með lagasetningu frá degi til dags, eigi erfitt með að átta sig á því hver raunverulegur rekstraraðili áfengisverslananna sé. Einn félagi VÍ upplifði fyrir nokkrum dögum nokkuð sem er til marks um þetta.
Hann var á laugardagseftirmiðdegi staddur í matvöruverslun á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi, hafði ekki komið þangað í margar vikur. Hann hafði heyrt af því ávæning í sumar að til stæði að loka útsölustað ÁTVR sem verið hafði í mörg ár í kjallara hússins. Hann spyr afgreiðslumanninn í matvörubúðinni, dreng á menntaskólaaldri, hvort ríkið sé enn í kjallaranum. Drengurinn sagðist ekki vera viss en að það væri að minnsta kosti vínbúð við hliðina.
Drengurinn á Eiðistorgi er trúlega ekki sá eini sem gerir greinarmun á Ríkinu og Vínbúðinni. Andlitslyfting útsölustaða Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og nafnbreyting hefur án efa leitt til þess að fjöldinn allur af fólki gæti sem best trúað því að eigendaskipti hefðu orðið á útsölustöðum ÁTVR. Kannski var það einmitt ætlunin hjá forráðamönnum ÁTVR. Greinilegt er að smám saman á allt það sem tengir útsölustaðina við hið opinbera að víkja og í staðinn að koma nútímalegt og frísklegt viðmót og markaðssetning verslana sem gefur stórverslunum landsins ekkert eftir.
Hvernig komust stjórnvöld í þá stöðu að reka áfengisverslanir, og af hverju? Rétt er að rifja upp forsögu áfengiseinokunarinnar og um leið að velta því fyrir sér hvort þau rök sem færð voru fyrir fyrirbærinu eigi við enn þann dag í dag.
Einkasölu ríkisins á áfengi var komið á með lögum árið 1921 um leið og fyrirkomulagi á innflutningi á lyfjum og hjúkrunarvörum var breytt. Tilgangurinn var að koma böndum á sölu þess áfengis sem var leyft að flytja inn þrátt fyrir bannlögin. Ástæða lagasetningarinnar árið 1921 var annars vegar sú að einkasala ríkisins á áfengi átti að færa ríkinu miklar tekjur en hins vegar átti áfengissmásala ríkisins að tryggja einhvers konar eðlilega úthlutun á því áfengi sem fékkst flutt inn á þeim tíma. Læknar og lyfsalar höfðu selt áfengi fram að þessum tíma og einhverjir góðborgarar hafa sjálfsagt verið sárir yfir þeirri mismunun, þó að í lækningaskyni hafi verið. Dýralæknar voru líka stórtækir í áfengiskaupum, auðvitað líka í lækningaskyni.
Sjálfsagt hefur tilkoma smásölu ríkisins á áfengi að einhverju leyti orðið til þess að fleiri en læknar gátu keypt áfengi og ljóst er að smásalan hefur fært ríkinu miklar tekjur. En ef þessi rök hafa einhvern tímann verið ásættanleg, en um það efuðust margir á sínum tíma, þar á meðal ýmsir þingmenn, þá má fullyrða að þau rök eiga ekki lengur við um áfengissmásöluverslun ríkisins. Áfengi er ekki lengur bannvara og einkaréttur hins opinbera til innflutnings á því féll niður árið 1998. Tekjuöflun ríkisins af áfengissölu er fráleitt háð því að ríkið sjálft sýsli með áfengið. Óþægilega mörg dæmi sanna það en nefna má að olíufélögin virka ágætlega sem innheimtuaðilar fyrir eldsneytisskatta ríkissjóðs. Hið opinbera missir því ekki spón úr aski sínum þó verslunum ÁTVR væri komið í hendur einkaaðila.
Verslunarráð Íslands hefur lengi bent á tilgangsleysi ÁTVR og hefur í áratugi lagt til að verslun með áfengi verði í höndum einkaaðila eins og aðrar vörur. Verslunarráð hefur margoft dregið í efa þau rök fyrir ÁTVR sem hér hefur verið minnst á en einnig þau rök sem seinna hafa verið höfð í frammi og lúta að takmörkun á aðgengi almennings að áfengi. Í mikilvægu forvarnarstarfi ýmissa hefur það nefnilega verið talin forsenda baráttu gegn áfengisbölinu svokallaða að ríkið sjái um smásöluverslunina og takmarki starfsemi sína á margs konar hátt. Auðvitað er þetta með öllu ósannað en nú er ljóst að ekki einu sinni ríkið sjálft telur nauðsynlegt að takmarka aðgengi almennings að áfengi með starfsemi ÁTVR. Áfengisútsölustaðir ríkisins eru jafnvel auglýstir upp í dag með ljósaskiltum framan á verslunarmiðstöðvum. Með áðurnefndri andlitslyftingu útsölustaða ÁTVR eru því einfaldlega engin rök lengur fyrir því að ríkið standi í þessum verslanarekstri. Taka má undir sjónarmið Jóns Þorlákssonar þáverandi þingmanns sem í upphafi sá engar gildar ástæður fyrir lagasetningunni árið 1921.
Verslunarráð hvetur til þess að lög um áfengissölu verði tekin til endurskoðunar með það að markmiði að ríkið láti af þessari verslun.