Viðskiptaráð Íslands

Mætum samdrætti LSH með útboðum, segir Þór Sigfússon

Um þessar mundir stendur yfir hin árlega umræða um vanda Landspítala háskólasjúkrahúss.  Ljóst er hins vegar að vandi spítalans er meiri en verið hefur undanfarin ár og stjórnarnefnd LSH hefur kynnt heilbrigðisráðherra tillögur um niðurskurð.

Nýverið ákvað ríkisstjórn Verkamannaflokksins í Bretlandi að öll sjúkrahús verði að keppa um sjúklinga. Sjúkrahús munu fá greiddar fastar upphæðir fyrir margvíslegar aðgerðir. Þessi kerfisbreyting mun fyrst og fremst koma sér vel fyrir þau sjúkrahús sem eru skilvirk og vel rekin. Í árslok 2005 mun hver sjúklingur eiga rétt á að velja á milli fjögurra sjúkrahúsa, þar á meðal einkasjúkrahúss, til að sinna þeirri aðgerð sem viðkomandi þarf að fara í. Strax á næsta ári verða verðlagðar 45 algengar aðgerðir og fá sjúkrahúsin greitt samkvæmt því.

Nú á stjórnarnefnd LSH að leggja til að farin verði svipuð leið hérlendis.   Í ljósi smæðar markaðarins mætti hugsa sér að ríkið byrjaði á því að velja tíu algengar aðgerðir sem unnar eru á LSH eins og ýmsar bæklunaraðgerðir og hvetja síðan sjúkrahús og læknastöðvar að bjóða í þjónustuna. Sjúklingar þurfa síðan að eiga val um a.m.k. 2 viðurkenndar stofnanir til þess að sinna aðgerð.  Jafnvel þótt skammur tími sé til stefnu hafa forsvarsmenn ýmissa lækninga- og hjúkrunarfyrirtæki gefið til kynna að ekki sé því til fyrirstöðu að þeir bjóði í tiltekna þjónustu.  Þá mætti vel hugsa sér að strax yrði leitað leiða til að bjóða úr hluta öldrunarsviðs og sambýli við geðfatlaða en eins og fram hefur komið eru úrræði fyrir geðfatlaða á LSH dýrari en á sambýlum enda þótt sambýli séu talin hentugri og manneskjulegri úrræði en stofnanir fyrir þennan hóp.

Forsendur fyrir útboðum á þessu sviði hafa gerbreyst á skömmum tíma.  Í fyrsta lagi eru starfandi öflug einkafyrirtæki á ýmsum sviðum sem hafa á að skipa mikið af hæfu starfsfólki.  Í öðru lagi hefur Landspítali háskólasjúkrahús unnið að kostnaðarmati á einstökum aðgerðum á spítalanum samkvæmt svokölluðu DRG kerfi. Þessi vinna skilar því vonandi að auðveldar verður að meta kostnað og bera saman afköst á ólíkum sjúkrahúsum og læknastöðvum. Um leið skapast þá aukið tækifæri fyrir heilbrigðisráðuneytið að bera saman sjúkrahús og verða betri kaupandi að þjónustu sjúkrahúsa og læknastöðva. Í þriðja lagi er betri hljómgrunnur fyrir því á pólitískum vettvangi að opna kerfið og hleypa inn fjölbreyttari rekstrarformum.

Með auknum útboðum á þjónustu fá sjúklingar raunverulegt val um margvíslega þjónustu, aðhald á sjúkrastofnanir eykst um leið og gætt er hagsmuna skattgreiðenda.  Þá má fullyrða að staða LSH styrkist við þetta fyrirkomulag þar sem kaupandinn, heilbrigðisráðuneytið, þarf í auknu mæli að gera sér grein fyrir því hvað ríkið vill kaupa af þjónustu á heilbrigðissviði og í hvaða magni. Innkaupastefna ríkisins, sem samþykkt var í ríkisstjórn á síðasta ári, leggur áherslu á að ríkið leiti ávallt eftir því að bjóða góða þjónustu á sem lægstu verði, hvort sem þjónustan er veitt af hinu opinbera eða öðrum rekstraraðilum.  Bæði með innkaupastefnu ríkisins og upptöku DRG má segja að grunnur hafi verið lagður að frekari útboðum í heilbrigðisþjónustu. 

Þór Sigfússon

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024