Páll Gunnar Pálsson forstjóri Fjármálaeftirlits sagði á morgunverðarfundi Verslunarráðs í morgun að ljóst væri að eignatengsl hefðu áhrif á samkeppni, gengi hlutabréfa og fjármálastarfsemi. Til þess að átta sig á hversu mikil áhrifin væru á gengi hlutabréfa þyrfti að gera samanburð við erlenda markaði. Páll Gunnar minnti á að fjárfestingar íslenskra lífeyrissjóða leiða til umfangsmikilla eignatengsla. Hann talaði um að smæð markaðarins gerði það að verkum að eignatengsl væru meiri hér en annars staðar. Að mati Páls eru eignatengsl ekki alltaf nógu skýr.
Hér má finna ræðu Páls Gunnars.
Gylfi Magnússon dósent við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands sagði eignatengsl meiri hér á landi miðað við Bandaríkin en minni miðað við það sem þekkist á mörkuðum í Asíu. Ísland væri þó líkara vestur-Evrópu forminu. Lagaumhverfið hefði áhrif t.a.m. skattalög, samkeppnislög og lög um fjármálafyrirtæki. Gylfi sagði það umhugsunarefni að ekkert fyrirtæki hér á landi væri almenningshlutafélag, þ.e. að það hreina form, sem mikið er um í Bandaríkjunum (þar sem fyrirtæki ættu ekki dótturfyrirtæki o.þ.h.), þekktist varla hér á landi. Hann sagði eignatengsl aðallega vera áhyggjuefni eigandanna, þar sem þeir gætu þá ekki alltaf leitað hagstæðustu viðskiptanna. Best væri fyrir eigendur að geta leitað bestu kjara hverju sinni í stað þess að beina viðskiptum sínum að þeim sem væru þeim tengdir. Gylfi sagði smæð markaðarins vera vandamál. Flest íslensk fyrirtæki væru svo smá að þau ættu ekki erindi á hlutabréfamarkað. Hann sagði það vera áhyggjuefni að bein eign almennings í hlutafélögum færi minnkandi.
Benedikt Jóhannesson framkvæmdastjóri Talnakönnunar hf. sagði að of mikil eignatengsl í íslensku atvinnulífi drægju úr hagræði og minnkuðu samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs t.a.m. ef samsteypur yrðu að skipta hver við aðra vegna eignatengsla. Hann taldi rétt lítilla hluthafa vera fyrir borð borinn. Benedikt telur að til greina komi að setja sérstök lög sem banni fjárfestingar viðskiptabanka þar sem svokallaðir kínamúrar innan bankanna virki ekki sem skyldi.
Að framsögum loknum bættust Þórdís Sigurðardóttir stjórnarformaður EJS hf. og Jafet Ólafsson framkvæmdastjóri Verðbréfastofunnar hf. við í pallborðsumræður.
Þórdís sagði samkeppni aldrei hafa verið meiri hér á landi en nú er. Hægt væri að líta til fjármálafyrirtækja, fjölmiðlafyrirtækja og flugfélaga. Ástæðuna fyrir þessari miklu samkeppni taldi Þórdís vera aðkomu nýrrar kynslóðar að viðskiptalífinu. Útrás fyrirtækja væri mikil og að íslensk útrásarfyrirtæki fjárfestu aftur hérna heima.
Jafet sagði mikilvægt fyrir alla í viðskiptalífinu að þekkja eignatengsl. Hann sagði að oft væri veðjað á ákveðna einstaklinga, en hins vegar ætti ekki að skipta máli fyrir fjárfesta hver eignatengslin væru.
Í umræðunum svaraði Páll hugmyndum Benedikts um aðskilnað viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingastarfsemi og sagði að algert bann við fjárfestingum viðskiptabanka væri ógerlegt m.a. vegna alþjóðlegra reglna um atvinnustarfsemi. Hins vegar væri æskilegt að þessi starfsemi væri aðskilin. Hann telur að bankar muni sjálfir kjósa að skilja að þessa starfsemi.
Þá beindi Páll Gunnar þeim tilmælum til þeirra sem kunna að hafa sögur að segja um ólögmæta starfshætti viðskiptabanka að staðfesta þær sögusagnir við Fjármálaeftirlitið en Benedikt hafði áður sagt frá nýlegum viðskiptum fyrirtækis við lánastofnun sem lauk með frekar óhagstæðum hætti fyrir fyrirtækið en væntanlega heppilegri fyrir lánastofnunina.