Viðskiptaráð Íslands

Austurland getur orðið eitt af kraftmestu atvinnusvæðum við norðanvert Atlanshaf

Verslunarráð stóð  fyrir ráðstefnu á Reyðarfirði undir yfirskriftinni ,,Austurland:Vaxtarsvæði framtíðarinnar?”

,,Austurland er samkeppnishæft og mýmörg tækifæri fyrir samfélagið fyrir austan að verða hugsanlega eitt af kraftmestu atvinnusvæðum við norðanvert Atlantshaf,” sagði Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair og formaður stjórnar Verslunarráðs Íslands.

Jón Karl segir tækifærin vera gríðarlega mörg en verkefnin einnig mikil.  ,,Eitt af því sem einkennir vaxandi samfélög er fjölbreytt atvinnulíf, þar sem íbúum gefst tækifæri til að byggja upp mismunandi þekkingu og fjölbreytni í vinnu.  Því hefur verið haldið fram að það sem ráði mestu um byggðarþróun landa séu góðar samgöngur, menntun og fjölbreytni í atvinnulífi.”  Jón Karl sagði að til að ná árangri þurfi Austfirðingar á endurnýjun og ungu fólki að halda.  Efla þurfi menntun á svæðinu og gera fjölskyldum kleift að búa þar.  Þar skipti ekki aðeins heilsugæsla og góðir skólar máli heldur einnig þekking, þjónusta og menningarstarf. 

Verslunarráð Íslands hyggst verða við beiðnum frá Austurlandi og Norðurlandi um starfsemi í þessum landsfjórðungum, þannig að atvinnulífið þar hafi aðgang að upplýsinga- og ráðgjöf og innlendu og erlendu tengslaneti ráðsins.

Guðmundur Bjarnason, bæjarstjóri Fjarðabyggðar sagði í gær við setningu ráðstefnunnar. ,,Það er afar mikilvægt að hér byggist upp öflug þjónusta sem þjóna mun álverinu í framtíðinni og annarri starfsemi,  Einnig er nauðsynlegt að ríkisvaldið komi hér af myndarskap að uppbyggingu opinberrar þjónustu, sem og annarra framkvæmda.  Því miður hefur borið við að hér sé framkvæmdum slegið á frest vegna þess að hér sé svo mikið að gera og mikið umleikis og opinberu fjármagni því beint annað.  Það er stórhættulegt viðhorf.  Sú mikla uppbygging sem hér á sér stað kallar á aðrar framkvæmdir sem bráðnauðsynlegt er að verði samhliða og ekki dregnar á langinn.”

Guðfinna S. Bjarnadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, sagði framtíðar hagsmuni Háskólans og Austfirðinga fara saman; nýsköpun í atvinnulífi, tækniþróun, samstarf og alþjóðasamskipti.  Hún sagði  að vafalaust þyrfti að byggja háskóla á Austurlandi, skóla þar sem nýta megi tæknina, laða að vísinda- og fræðimenn og skapa þekkingarsamfélag.

Víglundur Þorsteinsson, stjórnarformaður BM Vallár, sagðist sjá fyrir sér að með stórtækri stefnumótun gætu íbúar Austurland verið orðnir 30-40 þúsund árið 2030 og byggðin þá orðin borg.

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaráls,  var sammála Víglundi og sagðist ekki sjá neina hættu á ofþenslu í náinni framtíð.  Þvert á móti væru allir möguleikar fyrir hendi til að skapa fjölbreytt atvinnulíf með miklu möguleikum og tækifærum.

Jafet Ólafsson, framkvæmdarstjóri Verðbréfastofunnar hf., sagði mjög sláandi að ekkert hlutafélag á Austurlandi væri skráð í Kauphöll Íslands.  ,,Það vantar fleiri fjárfestingartækifæri fyrir austan, en þær miklu framkvæmdir sem hér eru munu skapa ný fyrirtæki, ný þjónustustörf og tækifæri til fjárfestinga.”

Um 6o manns voru á ráðstefnunni á Reyðarfirði fundarstjóri var Þór Sigfússon, framkvæmdarstjóri Verslunarráðs. 

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024