Verslunarráð hefur nýlega bent á fjölmörg dæmi um það hvernig ríkið og ríkisstofnanir hafa staðið í óeðlilegri samkeppni við einkafyrirtæki. Nú nýverið bárust fregnir af enn einu dæmi um þetta á sviði vegagerðar.
Fyrir fáeinum árum bárust fregnir af merkilegu einkaframtaki á Vestfjörðum. Einkafyrirtækið Leið ehf. lagði fram hugmyndir og áætlanir um lagningu 25 km vegar sem kæmi í stað núverandi slóða yfir Tröllatunguheiði og lægi sunnan Hólmavíkur á Ströndum yfir í Reykhólasveit, skammt norðan brúarinnar yfir Gilsfjörð.
Fyrirhugaður vegur gerði allt í senn að stytta leiðir, flýta framkvæmdum, auka umferðaröryggi og tengja saman byggðir.
Leið ehf. hefur hafið undirbúning að lagningu vegarins með það í huga að flýta framkvæmdinni gegn því að fá upp í kostnað af þeim sem um veginn færu með hóflegum veggjöldum. Hugmyndin var síðan sú að ríkið gæti tekið yfir rekstur vegarins síðar meir. Leið ehf. hefur þegar látið vinna umhverfsmat fyrir veginn og það verið auglýst opinberlega. Næst áformaði Leið ehf. að ráðast í hönnun vegarins og gerð útboðsgagna, sem er verkefni sem ekki þarf að taka lengri tíma en sex til átta mánuði. Í framhaldinu hefði síðan mátt bjóða veginn út ef hagstæð tilboð bærust og fjármögnun tækist.
Í vor samþykkti Alþingi hins vegar nýja samgönguáætlun fyrir árin 2005 til 2008 þar sem í fyrsta sinn er gert er ráð fyrir vegi þessa leið og áætlaðar til hans 100 m.kr. á árinu 2008, en kostnaðaráætlun með virðiaukaskatti við framkvæmdina alla hljóðar upp á 800 m.kr. Í framhaldinu gerist það að ráðherra samgöngumála, Sturla Böðvarsson, boðar í grein á vefsíðu sinni, www.sturla.is, að hann hafi heimilað vegamálastjóra að ganga til samninga við Leið ehf. um kaup Vegagerðarinnar á þeirri vinnu sem fram hefur farið á vegum félagsins. Kemur jafnframt fram að áformað sé að hefjast fljótlega handa við hönnun vegarins og að hann verði tilbúinn til útboðs á árinu 2008. Er borið við að ekki sé hægt að fara hraðar í verkið vegna skorts á fjármunum til vegagerðar alls staðar á landinu. Ekkert kemur hins vegar fram um það hvaða fjármunir séu fyrir hendi umfram þessar 100 m.kr. til að ljúka gerð vegarins né hvenær það gæti orðið.
Telja verður einkennilegt úr því sem komið er að kostir einkaframtaksins skuli ekki fá að njóta sín við gerð og flýtingu vegarins. Kunnátta og geta einkaaðila til þessara hluta er fyrir hendi. Þá er í samgönguáætlun fyrir árin 2005 til 2008 gert ráð fyrir að unnin verði úttekt og settar fram tillögur um hvernig nýta megi markaðsöflin við fjármögnun, uppbyggingu og rekstur samgangna. Það verkefni að heimila einkaaðila að undirbúa og annast fjármögnun og lagningu vegarins væri mjög verðugt tilraunaverkefni á þessum vettvangi. Haft skal í huga gagnvart þeim sem eru á móti gjaldtöku að þetta er vegur sem enginn væri neyddur til að aka, áfram verður hægt að aka Strandir auk þess sem á sumrin bjóðast enn fleiri kostir. Skora verður á samgönguráðherra að nýta sér einkaframtakið í þessum efnum og flýta um leið brýnni vegarframkvæmd.
Það er einkennilegt ráðslag að ríkið skuli vilja koma höndum yfir þá vinnu sem þegar hefur verið unnin, vinna sem lofar góðu og miklar líkur eru til að leiði til þess að bjóða megi veginn út vel innan árs. Þess í stað ætti samgönguráðherra að heimila markaðsöflunum að spreyta sig á verkefninu í þágu bættra samgangna, aukins umferðaröryggis, betri búsetuskilyrða og sparnaðar fyrir ríkið.
Þór Sigfússon