Um 150 manns sátu morgunverðarfund Viðskiptaráðs um Íslandsvélina, Veislan stendur enn, en.... Á fundinum fjölluðu Vilhjálmur Egilsson ráðuneytisstjóri sjávarútvegsráðuneytisins, Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri Landsbankans og Arnór Sighvatsson aðalhagfræðingur Seðlabankans um stöðu efnahagsmála, einkum í ljósi þess sem þeir höfðu sagt á sambærilegum fundi ráðsins fyrir um hálfu ári síðan.
Vilhjálmur fjallaði um efnahagslífið vítt og breitt. Hann telur að Seðlabankinn þurfi að fara varlega í það að hækka stýrivexti, sjávarútvegurinn þoli ekki frekari styrkingu krónunnar. Sjá erindi Vilhjálms hér.
Sigurjón viðurkenndi að krónan væri í dag sterkari en hann hafði átt von á, þó að staða hennar væri nú svipuð og fyrir hálfu ári. Sigurjón benti á að í raun gæti hún verið sterkari ef ekki hefðu komið til aðgerða af hálfu hins opinbera með kaupum á erlendum gjaldeyri. Sigurjón metur fasteignamarkaðinn þannig að það stefni í að hægist á hækkunum á íbúðarverði. Hann telur hins vegar vaxandi þenslu vera á vinnumarkaði.
Sjá glærur Sigurjóns hér.
Arnór sagði íslenskt efnahagslíf sýna alvarleg ofþenslumerki um þessar mundir og að veislan hefði trúlega nú náð hámarki. Þá taldi hann einsýnt að viðskiptahallinn verði meiri en bankinn hafði spáð í mars sl. og Ísland haldi áfram að slá skuldamet meðal þróaðra þjóða. Arnór varaði sterklega við hugmyndum sem settar hafa verið fram um getuleysi peningastefnunnar (aðgerðir Seðlabankans með hliðsjón af verðbólgumarkmiðum hans sem geta leitt til styrkingar krónunnar). Í því sambandi biður hann menn um að tala skýrar. Hann spurði á móti hvað það væri sem menn vilja frekar en verðbólgumarkmið Seðlabankans. Menn þurfi að svara því.
Sjá glærur Arnórs hér.
Svipmyndir af fundi: