Metþátttaka verður á árlegt Viðskiptaþing Viðskiptaráðs Íslands, eða hátt í 500 manns og er þegar uppselt á þingið. Meðal gesta verða lykilmenn í íslensku viðskiptalífi, ráðherrar, þingmenn, fræðimenn, erlendir sendiherrar og embættismenn. Þingið verður haldið á Nordica hótel milli klukkan 13:30 og 16:30 á morgun. Yfirskrift þingsins að þessu sinni er: Ísland, best í heimi? og er tileinkað alþjóðlegu orðspori og ímynd Íslands.
Erindi munu flytja Geir H. Haarde forsætisráðherra, Simon Anholt einn helsti sérfræðingur heims í ímynd þjóða, Erlendur Hjaltason forstjóri Exista og formaður Viðskiptaráðs og Halla Tómasdóttir framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Þá mun Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, afhenda námsstyrki Viðskiptaráðs.
Þátttakendur í umræðum verða Jón Ásgeir Jóhannesson forstjóri Baugs, Lýður Guðmundsson stjórnarformaður Bakkavarar og Exista, Róbert Wessman forstjóri Actavis og Svafa Grönfeldt rektor Háskólans í Reykjavík. Fundarstjóri verður Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair, en Eva María Jónsdóttir, dagskrárgerðarmaður, mun stýra umræðum.
Viðskiptaráð átti frumkvæði að því að fyrir nokkrum mánuðum hófst sameiginleg vinna atvinnulífsins og ríkisstjórnarinnar um ímyndarmál Íslands. Starfshópur, sem starfaði undir stjórn Simon Anholt, var skipaður forsætisráðherra, utanríkisráðherra, viðskiptaráðherra, menntamálaráðherra auk fulltrúum Viðskiptaráðs. Í ræðu sinni mun Simon segja frá þeirri vinnu auk niðurstöðu rannsóknar um ímynd Íslands, í samanburði við önnur ríki, sem gerð var meðal hátt í 30 þúsund manna í 35 löndum.
Tvær skýrslur verða gefnar út í tilefni af þinginu. Önnur ber nafnið Icelands Advance, en í henni er útrás íslenskra fyrirtækja á árunum 2001 2006 kortlögð. Sú seinni ber nafnið Anholt Nation Brands Index: Iceland 2006 og eru þar birtar niðurstöður framangreindrar rannsóknar.