Viðskiptaráð Íslands

Túlkun Viðskiptaráðs á 15. gr. laga um rafræna eignaskráningu verðbréfa


Í síðustu viku ákváðu Straumur, Verðbréfaskráning Íslands og Kauphöllin sameiginlega að fresta fyrirhugaðri evruskráningu hlutabréfa Straums. Tilefnið var athugasemd Seðlabanka Íslands er laut að tilhögun á verðbréfauppgjörinu, nánar tiltekið að 15. gr. laga nr. 131/1997 um rafræna eignaskráningu, en Seðlabankinn telur að samkvæmt því ákvæði sé honum einum heimilt að annast slíkt uppgjör.

15. gr. laga um rafræna eignaskráningu verðbréfa nr. 131/1997
Seðlabanki Íslands tekur við innlánum frá reikningsstofnunum sem aðild eiga að verðbréfamiðstöð og annast efndalok viðskipta þeirra með rafbréf. [...](leturbreyting undirritaðs)

Túlkun Viðskiptaráðs Íslands
Samkvæmt réttarríkishugtakinu lýtur þjóðfélagsskipanin lögum og allar athafnir hins opinbera þurfa að eiga sér stoð í tilteknum réttarreglum. Sett lög eru þar að öllu jöfnu rétthæst, á eftir ákvæðum stjórnarskrárinnar. Einkaaðilar eru ekki bundir á sama hátt og opinberir aðilar og þurfa athafnir þeirra því ekki með beinum hætti að eiga sér lagastoð, heldur þurfa þeir aðeins að gæta þess að athafnir þeirra rúmist innan þess ramma sem löggjafinn hefur sett. Er íslenskri réttarskipan þannig háttað að athafnir einkaaðila eru heimilar séu þær ekki beinlínis óheimilar samkvæmt tilteknum réttarreglum.

Umrætt ákvæði, eins og það verður lesið samkvæmt orðanna hljóðan, kveður á um að Seðlabanki Íslands annist efndalok viðskipta með rafbréf. Hvergi í ákvæðinu er annars vegar kveðið á um að öðrum sé slíkt óheimilt eða hins vegar að Seðlabankanum sé það einum heimilt. Greinargerð laganna veitir ekkert svar við ofangreindu. Miðað við þá réttarskipan sem er við lýði hér á landi er því öllum fyrirtækjum sem viðskiptaráðherra hefur veitt leyfi til að starfrækja verðbréfamiðstöð, skv. 3. gr. laganna, heimilt að annast umrædd efndalok viðskipta. Framangreind lögskýring er í samræmi við það grundvallarsjónarmið lögskýringa að skýra beri lagaákvæði svo að það feli í sér eðlilega, sanngjarna og hagkvæma reglu. Það er ekkert eðlilegra, sanngjarnara og sér í lagi hagkvæmara en að heimila samkeppni um slík uppgjör.

Þannig tekur Viðskiptaráð undir þá túlkun sem sett hefur verið fram að Seðlabankanum sé skylt að annast umrædd efndalok en öllum öðrum leyfishöfum það heimilt.

Haraldur I. Birgisson
Lögfræðingur Viðskiptaráðs

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024