Viðskiptaráð Íslands

Ljúka skuli söluferli Íslandsbanka eins fljótt og auðið er

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar frumvarpsdrög um breytingar á lögum um ráðstöfun eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka. Ráðið hvetur stjórnvöld til að ljúka söluferlinu eins fljótt og auðið er og hefja undirbúning á sölu á hlut í Landsbankanum.

Viðskiptaráð fagnar áformum ríkisstjórnarinnar um að ljúka sölu á eftirstandandi eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka og gerir ekki athugasemdir við efni frumvarpsins.

Ráðið er fylgjandi því að selja hlut ríkisins með almennu útboði líkt og lagt er til í frumvarpinu og styður þá útfærslu sem lögð er til um að notast við þrjár tilboðsbækur. Loks er ráðið fylgjandi þeirri nálgun sem valin hefur verið að veita almenningi forgang í útboðinu, sem og því að leitast við að tryggja þátttöku erlendra fjárfesta.

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að ljúka söluferlinu samkvæmt þessu uppleggi eins fljótt og auðið er. Bankarekstur á það sameiginlegt með öðrum atvinnurekstri á samkeppnismarkaði að vera áhættusamur. Í hvítbók stjórnvalda um fjármálakerfið eru taldir upp áhættuþættir sem einkenna fjármálafyrirtæki og bent á hvernig þeir geti haft áhrif á rekstur þeirra. Með því að binda fjármuni skattgreiðenda í bankarekstri er þessi áhætta sett á herðar almennings og hann látinn bera tjónið við næstu skakkaföll.

Þá er opinbert eignarhald á fyrirtækjum í atvinnurekstri óheppilegt þegar kemur að hagræðingu, framþróun og öðrum þáttum sem stuðla að framleiðnivexti og gagnast þannig bæði viðskiptavinum bankanna og samfélaginu í heild. Fá ríki eru jafn umsvifamikil og Ísland þegar kemur að eignarhaldi hins opinbera á bönkum. Brýnt er að mati ráðsins að bæta úr þeirri stöðu með því að draga úr opinberu eignarhaldi í bankakerfinu.

Erindi Arion banka til Íslandsbanka um áhuga á viðræðum um sameiningu bankanna á ekki að hafa áhrif á áform ríkisins um að selja eftirstandandi hlut sinn í Íslandsbanka. Fari slíkar sameiningarviðræður í gang flokkast þær sem hluti af tilraunum bankanna sjálfra til að auka hagkvæmni í sínum rekstri. Opinbert eignarhald er ekki síður óheppilegt við þær aðstæður frekar en almennt. Eðlilegra er að aðkoma stjórnvalda að því ferli sé einvörðungu í gegnum þar til bæra eftirlitsaðila.

Að lokum hvetur Viðskiptaráð stjórnvöld til að hefja undirbúning á sölu á hlut í Landsbankanum svo slíkt útboð geti farið fram fljótt í kjölfar sölu á eftirstandandi eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka. Þannig væri unnt að draga enn frekar úr opinberu eignarhaldi í bankakerfinu hérlendis.

Umsögnina í heild sinni má lesa hér.

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024