Hátt í 260 manns sóttu Skattadag Deloitte, Samtaka Atvinnulífsins, Viðskiptablaðs Morgunblaðsins og Viðskiptaráðs Íslands núna í morgun á Grand Hótel. Á fundinum fjallaði Richard Teather prófessor við Bournemouth University um skattasamkeppni, Guðmundur Skúli Hartvigsson lögfræðingur á skatta- og lögfræðisviði Deloitte um helstu breytingar á skattalögum á árinu 2007, Jörundur Þórarinsson verkefnisstjóri á skatta- og lögfræðisviði Deloitte um skatta- og lagalega stöðu erlends starfsfólks hérlendis og loks Vala Valtýsdóttir forstöðumaður skatta- og lögfræðisviðs Deloitte um tvísköttun á virðisaukaskatti. Fundarstjóri var Guðrún Hálfdánardóttir aðstoðarfréttastjóri Morgunblaðsins en Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra setti fundinn með stuttu erindi.
Fjármálaráðherra fór stuttlega yfir núverandi ástand efnahagsmála sem hann sagði vel ásættanlegt og taldi svo verða á komandi árum. Ráðherra sagði víst að álagning skatta hefði áhrif á samkeppnishæfni hagkerfisins og á hagræna hegðan aðila innan þess. Hvað það varðar minnti ráðherra á að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar væri að finna ætlanir um að lækka frekar skatta og búa m.a. fyrirtækjum stöðugt og hagkvæmt umhverfi. Ráðherra sagði hins vegar að aðgerðir til frekari skattalækkana þyrftu að vera rétt tímasettar og falla að hagþróun hverju sinni. Í þeim efnum þyrfti að horfa til komandi kjarasamninga og núverandi óróa á fjármálamörkuðum. Ráðherra taldi íslenskt skattkerfi byggja á þrenns konar sjónarmiðum, þ.e. hagkvæmni, einfaldleika og jöfnuði. Að mati ráðherra hefur einfalt skattkerfi það í för með sér að auka hagkvæmni og skilvirkni og auka á jákvætt viðhorf almennings til þess. Að endingu sagði ráðherra mikilvægt að draga ekki úr tekjuöflun allra skattstofna því skattstofnar sem væru gjöfulir í uppsveiflum geta brugðist í niðursveiflum. Því væri skattkerfið frekar byggt á breiðum skattstofnum með lægra skatthlutfalli heldur en öfugt.
Í máli Richard Teather kom fram að lægri skattar hvetji til frumkvöðlastarfsemi, til beinna erlendra fjárfestinga inn í viðkomandi land, til sparnaðar og til fjárfestinga. Richard taldi skattasamkeppni vera jákvæða fyrir alla aðila hagkerfisins. Slík samkeppni hefði í för með sér aðhaldsáhrif fyrir hið opinbera og myndi hvetja til skilvirkari fjármagnsmarkaða. Hann taldi Ísland í fyrirtaks stöðu sem lítið land til að lækka enn frekar skatta, því hlutfallslega þyrfi ekki mikið fjármagn að streyma til landsins til að hafa talsverð jákvæð áhrif á hagkerfið. Richard fór stuttlega yfir afstöðu OECD og ESB gagnvart skattasamkeppni, en framangreindar stofnanir hafa haldið því fram að slík samkeppni geti verið skaðleg. Því er Richard ósammála. Í þeim efnum benti hann á að sex af tíu ríkustu löndum heims væru svokallaðar skattaparadísir. Hann benti einnig á að þegar Írland lækkaði skatta á fjármagn um helming hefði skattheimta ríkisins þrefaldast á sama tíma. Að mati Richard hefur skattasamkeppni ríkja undanfarin ár einnig haft þau áhrif að halda aftur af ríkisstjórnum að hækka skatta. Vegna framangreindrar afstöðu ESB til skattasamkeppni taldi Richard möguleika Íslands á að bjóða upp á hagfellt skattumhverfi væru afar góðir þar sem við stæðum utan ESB.
Frekari upplýsingar um efni fundarins og glærur eru aðgengilegar á vef Deloitte.
Ræðu fjármálaráðherra má nálgast hér.