Viðskiptaráð Íslands

Fjölsóttur Skattadagur

Árlegur Skattadagur Deloitte, Viðskiptaráðs Íslands og Viðskiptablaðs Morgunblaðsins var haldinn í morgun á Grand Hótel. Líkt og fyrri ár var fundurinn vel sóttur og voru um 230 manns skráðir. Á fundinum fjallaði Sigríður Logadóttir, aðallögfræðingur Seðlabankans, um gjaldeyrisreglur bankans. Gunnar Egill Egilsson fjallaði um starfsemi erlendra aðila hérlendis, Guðbjörg Þorsteinsdóttir og Hjördís B. Gunnarsdóttir fjölluðu um skattaleg áhrif við inngöngu í ESB og Vala Valtýsdóttir, forstöðumaður skatta- og lögfræðisviðs Deloitte, fór yfir reglur um skattalegan stuðning við eigið fé og tækifæri sem liggja þar. Fundarstjóri var Guðrún Hálfdánardóttir aðstoðarfréttastjóri mbl.is, en Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra setti fundinn með stuttu erindi.

Fjármálaráðherra fór stuttlega yfir núverandi ástand efnahagsmála og sagði hann vanda ríkisins um þessar mundir vera fjölþættan. Að mati ráðherra væri mikilvægt að grípa strax til nauðsynlegra aðgerða til að flýta fyrir bata í ríkisfjármálum, þó þær kunni að vera óvinsælar um tíma. Ráðherra sagði áætlanir gera ráð fyrir að rekstur ríkissjóðs komist í jafnvægi 2012, en taldi skynsamlegt að gera ráð fyrir því að alþjóðakreppan myndi sverfa enn frekar að áður en hagkerfið næði að rétta úr kútnum á nýjan leik. Þangað til væri eðlilegt að halli myndaðist á rekstri ríkissjóðs en mikilvægt væri að minnka hann hratt þegar hagkerfið tæki við sér á ný. Til að ná því marki væri m.a. nauðsynlegt að auka hagkvæmni í ríkisrekstri og draga úr útgjöldum. Við núverandi aðstæður sagði ráðherra lykilatriði að bregðast við á ábyrgan hátt og án þess að lagðar væru of miklar kvaðir á fyrirtæki og einstaklinga. Mikilvægt væri jafnframt að passa upp á að skattkerfið væri einfalt og gegnsætt og að það væri sem mest hvetjandi fyrir efnahagsstarfsemi í landinu.

Gunnar Egill Gunnarsson fór yfir starfsemi erlendra aðila hérhérlendis og skattaleg álitamál því tengd. Að hans mati er afar mikilvægt að greiða fyrir slíkri starfsemi með skatta- og rekstrarúrbótum. Þar má m.a. nefna breytingar sem myndu gera erlendum fyrirtækjum, sem mynda fasta starfsstöð hér á landi, kleift að sækja um tímabundna kennitölu í stað þess að þurfa að setja upp útibú eða dótturfélag. Að auki þyrfti að fá endanlega úr því skorið hvernig hátta ætti skattalegri meðferð útibúa, en skattyfirvöld hafa verið afar misvísandi með það.

Vala Valtýsdóttir fjallaði um skattalegan stuðning við eigin fé, en dæmi eru um slíkan stuðning t.a.m. í Belgíu. Í stuðningnum felst að frádráttur frá sköttum er veittur án gjalda og því er eigin fé jafnað við fjármögnun með lánum í skattalegu tilliti og fyrirtæki þannig hvött til að auka við eigið fé á kostnað skuldsetningar. Að hennar mati myndu reglur af þessu tagi bæði leiða til aukins eigin fjár í fyrirtækjum í eigu innlendra aðila sem og laða að fyrirtæki í eigu erlendra aðila. Í heildina taldi Vala að ríkissjóður gæti með reglum af þessu tagi aukið skatttekjur um tvo til þrjá milljarða á hverju ári.

Ræðu fjármálaráðherra má nálgast hér.
Upplýsingar um fundinn og glærur frá fundinum má nálgast hér.
Upplýsingar um eldri Skattadaga má nálgast á heimasíðu Viðskiptaráðs undir eldri fréttir.

Tengt efni

Einfalda megi skattkerfið

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, fullyrti að einfalda …
16. janúar 2026

Myndband: Er ríkið farið að þjónusta sig sjálft?

Lísbet Sigurðardóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs, fjallar um opnunartíma …
15. janúar 2026

Aðalfundur Viðskiptaráðs 2026

Aðalfundur Viðskiptaráðs Íslands fer fram þriðjudaginn 10. febrúar kl. 11:30 í …
13. janúar 2026