Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, þreytti frumraun sína á Skattadeginum sem fram fór í dag. Fjallað var um skatta á breiðum grunni á fundinum sem fram fór fyrir fullum sal í Hörpu.
Daði Már Kristófersson opnaði fundinn og flutti sitt fyrsta formlega erindi á opnum fundi sem fjármála- og efnahagsráðherra. Í erindi sínu fjallaði hann um stefnu ríkisstjórnarinnar um ábyrg ríkisfjármál og að kröftugt arðsamt atvinnulíf sem skapar verðmæti og störf sé undirstaða sameiginlegra verkefna, innviða og opinberrar þjónustu. Farsæld á Íslandi sé háð því að það fólk sem hér býr og þau fyrirtæki sem hér starfa geti komið góðum hugmyndum í framkvæmd og nýtt tækifærin sem að hér eru til að bæta hag sinn, samfélaginu öllu til heilla.
„Flókið og illskiljanlegt kerfi eykur kostnað, veldur tortryggni og dregur úr virkni. Skattkerfi sem er sanngjarnt og einfalt er hagkvæmara og um leið ódýrara. Að þessu stefnir ríkisstjórnin,“ sagði Daði Már í opnunarávarpi sínu.
Haraldur I. Birgisson, meðeigandi hjá Deloitte, fjallaði um helstu skattalagabreytingar síðasta árs og breytingar á skattframkvæmd. María Guðjónsdóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs, fór yfir mikilvægi þess að fara varlega við skattlagningu fjármagns.
Ingvar Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Nox Medical og formaður Hugverkaráðs, fjallað um verðmætasköpun með hugvitið að vopni. Þar fór hann yfir sögu Nox Medical og þróun á stuðningsumhvefi nýsköpunar og áhrif þess á fyrirtækið. Þess á milli voru flutt örinnslög frá nýsköpunarfyrirtækjum. Fundarstjórn var í höndum Heiðrúnar Gísladóttur, lögmanns hjá Samtökum atvinnulífsins.
Deloitte, Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins vilja þakka þeim sem sóttu fundinn kærlega fyrir komuna og einnig þá sem horfu á fundinn í beinu streymi.