Viðskiptaráð Íslands

Mikil þátttaka á Viðskiptaþingi 2008

Yfir 400 manns hafa skráð sig á árlegt Viðskiptaþing Viðskiptaráðs Íslands, en skráningu lýkur í dag. Meðal gesta verða lykilmenn í íslensku viðskiptalífi, ráðherrar, þingmenn, fræðimenn, erlendir sendiherrar og embættismenn. Þingið verður haldið á Hilton Reykjavík Nordica milli klukkan 13:30 og 16:30 á morgun. Yfirskrift þingsins er að þessu sinni: „Íslenska krónan: byrði eða blóraböggull?“ og er þingið tileinkað stöðu peningamála á Íslandi.

Erindi munu flytja Geir H. Haarde forsætisráðherra, Jürgen Stark stjórnarmaður í Seðlabanka Evrópu, Richard Portes sérfræðingur í alþjóðafjármálum frá London Business School og Erlendur Hjaltason formaður Viðskiptaráðs og forstjóri Exista. Þá mun Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, afhenda námsstyrki Viðskiptaráðs.

Þátttakendur í umræðum verða Hreiðar Már Sigurðsson forstjóri Kaupþings, Katrín Pétursdóttir forstjóri Lýsis, Róbert Wessman forstjóri Actavis og Tryggvi Þór Herbertsson forstjóri Askar Capital. Fundarstjóri verður Jón Karl Ólafsson, en Þóra Arnórsdóttir, fréttakona, mun stýra umræðum.

Viðskiptaráð hefur verið leiðandi í umræðunni um fyrirkomulag peningamála og leitast við að draga fram sjónarmið ólíkra hópa í þessu máli. Engu að síður virðist sem heildræna stefnumótun skorti hvað peningamál á Íslandi varðar. Því er mikilvægt að þessi mál séu rædd opinskátt og vel ígrundaðar ákvarðanir teknar.

Tvær skýrslur verða gefnar út í tilefni af þinginu. Önnur ber nafnið „Krónan: Byrði eða blóraböggull?“, en í henni er fjallað m.a. um helstu þætti sem draga úr fýsileika krónunnar sem gjaldmiðils sem og hugsanlegar lausnir og leiðir gjaldeyrismálum hérlendis. Sú seinni hefur að geyma niðurstöður könnunar sem Viðskiptaráð stóð fyrir vikurnar fyrir þingið og er þar m.a. að finna álit aðildarfélaga á stöðu peningamála.

Tengt efni

Opið fyrir umsóknir í Menntasjóð VÍ

Opið er fyrir umsóknir um námsstyrki úr Menntasjóði Viðskiptaráðs Íslands (MVÍ). …
5. janúar 2026

Skattadagurinn fer fram 15. janúar

Hinn árlegi Skattadagur Deloitte, Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins verður …
5. janúar 2026

Opnunartími milli jóla og nýárs

Lokað verður á skrifstofu Viðskiptaráðs á aðfangadag og á gamlársdag.
22. desember 2025