Nú þegar hafa tæplega 300 manns skráð sig á árlegt Viðskiptaþing Viðskiptaráðs Íslands sem verður haldið núna á fimmtudaginn (12. mars) á Reykjavík Hilton Nordica. Að þessu sinni er yfirskrift þingsins „Endurreisn hagkerfisins“, en meðal gesta verða lykilmenn úr íslensku viðskiptalífi, ráðherrar, þingmenn, fræðimenn, erlendir sendiherrar og embættismenn.
Erindi verða flutt af Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, Erlendi Hjaltasyni formanni Viðskiptaráðs og Dr. Pedro Videla prófessor í hagfræði við IESE viðskiptaháskólann í Barcelona. Þá mun Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra afhenda námsstyrki Viðskiptaráðs.
Að loknum framsögun verða umræður um áherslur stjórnmálaflokkana til framtíðar þar sem fulltrúar allra flokka á Alþingi taka þátt. Þar á eftir verða pallborðsumræður um viðbrögð og viðhorf viðskiptalífsins, en í þeim umræðum taka þátt þau Jón Sigurðsson forstjóri Össurar, Kristín Pétursdóttir forstjóri Auðar Capital, Svava Grönfeldt rektor Háskólans í Reykjavík, Tómas Már Sigurðsson forstjóri Alcoa Fjarðaáls og Vilhjálmur Þorsteinsson stjórnarformaður CCP. Umræðum stjórnar Bogi Ágústsson.
Viðskiptaráð mun gefa út skýrslu í tengslum við Viðskipaþingið og ber hún heitið „Endurreisn hagkerfisins – horf til framtíðar“. Í skýrslunni er fjallað um mikilvægi þess að líta til framtíðar og fjallað um þær áherslur sem heppilegt er að hafa að leiðarljósi í því endurreisnarstarfi sem framundan er. Gestir fá eintak af skýrslunni á þinginu.
Viðskiptaráð hefur frá upphafi beitt sér fyrir kröftugu atvinnulífi og er meginhlutverk ráðsins að vera öflugur bakhjarl íslensks viðskiptalífs. Það er von Viðskiptaráðs að þingið reynist lóð á vogarskálar uppbyggilegrar umræðu um eitt mikilvægasta verkefni sem íslenska þjóðin hefur nokkru sinni staðið frammi fyrir: Endurreisn hagkerfisins.
Upplýsingar um dagskrá þingsins og skráningu má nálgast hér. Skráning fer einnig fram í síma 510-7100.