Viðskiptaráð Íslands

Forsætisráðherra fagnar umræðu um stöðu peningamála

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, fagnaði umræðu um stöðu peningamála á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs. Geir sagði m.a. : „Í litlu, opnu, alþjóðavæddu og ört vaxandi hagkerfi eins og því íslenska er eðli­legt og nauðsynlegt að fram fari frjó umræða um stöðu efna­hagsmála almennt jafnt sem skipulag gengis- og gjaldmiðilsmála. Ég vil þess vegna þakka Viðskiptaráði fyrir að taka þetta mál til umfjöllunar. Hér gefst tækifæri til þess að fara yfir stöðu mála, heyra mismunandi sjónarmið og horfa fram á veginn” Í ræðu sinni benti Geir á að engin töfralausn fælist í upptöku evru á Íslandi. Um það sagði hann m.a. “Þetta mál snýst um að finna hagkvæmasta fyrirkomulag fyrir gjaldmiðil í okkar litla, opna hagkerfi sem varðveitir jafnframt efnahags­pólitískt sjálfstæði þjóðar­innar og gerir okkur kleift að kljást við hagsveiflur hér á landi sem reynslan sýnir að eru yfirleitt ekki í takt við sveiflur í öðrum og stærri hagkerfum.

Engin betri skipan er á boðstólum í dag en sú að viðhalda íslensku krónunni, hvað sem síðar kann að verða. Seðlabankanum er með verðbólgumarkmiði sínu ætlað að standa vörð um verðgildi hennar. Evran gerir engin kraftaverk fyrir hagstjórnina. Það sem skiptir meginmáli er að hagstjórnin sjálf sé skynsamleg.“ Forsætisráðherra telur ekki skynsamlegt að evra verði tekin upp einhliða. Um það sagði hann m.a. “Ég tel að línurnar séu farnar að skýrast verulega þar sem nú virðast flestir hafa áttað sig á því að hér eru aðeins tveir kostir í boði: Að halda íslensku krónunni eða taka upp evru sem jafnframt þýðir inngöngu í Evrópusambandið. Það er einfaldlega ekki kostur að taka einhliða upp evru. Slíkt er ekki trúverðugt og því fylgir margs konar óhagræði og aukakostnaður.”

Í ræðu sinni ræddi Geir um stöðu fjármálafyrirtækja og sagði “Samkvæmt nýlegri úttekt Fjármálaeftirlitsins er staða íslensku bankanna talin góð miðað við aðra banka erlendis og undirstöður þeirra traustar. Sérfræðingar þess benda á góða afkomu bankanna undanfarin ár og þá staðreynd að jafnvel þótt óreglu­legar tekjur séu dregnar frá og eingöngu sé litið á arðsemi af kjarnastarfsemi standist þeir fyllilega samanburð við banka á hinum Norður­lönd­unum. Eigin­fjár­hlut­föll bankanna eru sterk og hlutfallslega betri en hjá mörgum erlendum bönkum og þeir geta því staðið af sér veruleg áföll. Bankarnir hafa staðist álagspróf sem gera ráð fyrir mikilli lækkun hlutabréfaverðs, veikingu á gengi krónunnar og aukn­um afföllum lána. Í þessu samhengi er einnig bent á að íslensku bankarnir hafa skilað hagnaði á meðan margir erlendir bankar, þar á meðal margir virtustu bankar heims, hafa verið að tapa.” Ennfremur lýsti Geir yfir áhuga ríkisstjórnarinnar á því að vinna í samstarfi við aðila markaðarins að því að draga úr neikvæðum afleiðingum lausafjárskorts á alþjóðamörkuðum. Um það sagði hann “Sem fyrr segir sýnir nýlegt áhættumat Fjármálaeftirlitsins glögglega að allir íslensku bankarnir standa traustum fótum og eiga að standast verulega versnandi ytri aðstæður án þess að eigið fé þeirra fari niður fyrir eðlileg öryggismörk.

Engu að síður telur ríkisstjórnin eðlilegt að vera í viðbragðsstöðu og undirbúa ráðstafanir í því skyni að draga úr neikvæðum afleiðingum hugsanlegrar lánsfjárkreppu á alþjóðamörkuðum. Eðlilegt er að vinna að slíku í góðu samstarfi við aðila á markaðnum. Hefur ríkisstjórnin í því skyni boðað aðila á fjármálamarkaði til fundar á morgun til að leggja á ráðin um þessi mál.”

Ræðu forsætisráðherra má nálgast hér

Tengt efni

Einfalda megi skattkerfið

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, fullyrti að einfalda …
16. janúar 2026

Myndband: Er ríkið farið að þjónusta sig sjálft?

Lísbet Sigurðardóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs, fjallar um opnunartíma …
15. janúar 2026

Aðalfundur Viðskiptaráðs 2026

Aðalfundur Viðskiptaráðs Íslands fer fram þriðjudaginn 10. febrúar kl. 11:30 í …
13. janúar 2026