Ríkisstjórnin kynnti í dag sparnaðaraðgerðir við 2. umræðu fjárlaga, en samkvæmt tillögunum er gert ráð fyrir að sparnaður í rekstrarútgjöldum og tekjutilfærslum nemi um 24 milljörðum eða 5,7% af heildarútgjöldum ríkissjóðs til þessara málaflokka. Vissulega ber að fagna viðleitni ríkisstjórnarinnar til að hagræða í rekstri sínum, en engu að síður er framsetning þessara sparnaðaraðgerða villandi. Í raun er ekki um eiginlegan sparnað að ræða, heldur einungis áform um að auka ríkisútjgjöld minna en upphaflega var gert ráð fyrir í fjárlögum næsta árs.
Hlutfallslega er gert ráð fyrir mestri hagræðingu í rekstri utanríkisþjónustunnar og hjá æðstu stjórn ríkisins. Að auki má nefna að fallið verður frá aukningu útgjalda til ýmissa einstakra liða, þeirra á meðal þróunaraðstoðar, mótframlagi í endurhæfingarsjóð auk ýmissa styrkjarliða.
Viðskiptaráð hefur ætið talað fyrir minni ríkisumsvifum og lagt til að útgjöld hins opinbera verði dregin saman. í þessum sambandi minnir Viðskiptaráð á skýrsluna Útþensla hins opinbera, þar sem ítarlega er fjallað um þróun ríkisútgjalda síðustu ára. Auk þess minnir Viðskiptaráð á skýrslu sína, 90 tillögur að bættri samkeppnishæfni Íslands, en þar er m.a. fjöldi tillagna um það hvernig hið opinbera getur hagrætt í rekstri sínum.