22. desember 2008
Í 9. lið nýlegrar aðgerðaáætlunar ríkisstjórnarinnar í þágu fyrirtækja er lýst yfir vilja til að greiða fyrir langtímaeign lífeyrissjóða á fasteignum sem þeir hafa lánað fyrir. Þessi breyting er vissulega þörf, enda mega lífeyrissjóðir einungis halda slíkum eignum í 18 mánuði nema í undantekningartilfellum. Fjármálaeftirlitið hefur túlkað skilyrði þess að sjóðirnir dragi sölu eigna mjög þröngt og því hafa undantekningartilfellin líklega verið færri en hagkvæmt væri. Það hefur leitt til þess að sjóðirnir hafi m.a. þurft að selja eignir á óheppilegum tíma, sem er engum til hagsbóta.
Við þær aðstæður sem nú eru uppi í hagkerfinu liggur fyrir að lífeyrissjóðirnir koma til með að leysa til sín fasteignir í auknum mæli. Með það í huga stendur til að gera breytingar á ofangreindum reglum á þann veg að skilyrðið verði rýmkað úr 18 mánuðum í 36 mánuði. Slíkt væri augljóslega til bóta, bæði fyrir markaðinn i heild og sjálfa lífeyrissjóðina.
Viðskiptaráð fagnar því að ríkisstjórnin skuli vinna í aðgerðaáætluninni sem kynnt var í síðasta mánuði. Brýnt er að ráðist verði sem fyrst þær aðgerðir sem þar voru kynntar.