Viðskiptaráð Íslands

Skattadagur 2010: Nóg komið af skattahækkunum

Uppselt var á árlegan skattadag Deloitte sem haldinn var í morgun á Grand Hótel í samstarfi við Viðskiptaráð Íslands, Viðskiptablað Morgunblaðsins og Samtök atvinnulífsins. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra setti fundinn en í framhaldi af því tók Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins til máls. Þá fylgdu erindi frá Völu Valtýsdóttur forstöðumanns skatta- og lögfræðisviðs Deloitte, Ragnari Árnasyni prófessor við Háskóla Íslands og Gunnari Agli Egilssyni á skatta- og lögfræðissviði Deloitte.

Viðamiklar breytingar framundan
Í máli fjármálaráðherra kom einna helst fram að áframhaldandi endurskoðun á skattkerfinu mun eiga sér stað á næstunni. Fyrirsjáanlegar á þessu ári eru því viðamiklar breytingar á skattkerfinu. Það verði gert í samráði við þingflokka, aðila vinnumarkaðarins og hagsmunaaðila. Þá sagði ráðherra jafnframt að í yfirstandandi breytingum hafi áhersla verið lögð á blandaða leið þar sem, að sögn ráðherra, talsvert mið væri tekið af félagslegu réttlæti skattkerfisins fremur en einfaldleika.

Hækkandi skattar á fallandi skattstofna
Í erindi sínu benti Vilhjálmur Egilsson á þá staðreynd að þegar væri búið að hækka skatta um meira en það sem stöðugleikasáttmálinn fól í sér. Hann taldi að vegna þess ætti áherslan nú að vera eingöngu á útgjaldahliðina, samhliða því sem tekjuöflunarhæfni skattkerfisins yrði aukin. Ekki væri skynsamlegt að hækka skatta á fallandi skattstofna líkt og stefna stjórnvalda gerir ráð fyrir, né heldur að leggja aukinn kostnað á atvinnulífið, undir yfirskrift ímyndaðs réttlætis, sem skilar engum skatttekjum. Nú væri þörf fyrir praktískar lausnir fremur en hugmyndfræðilega sigra og samræmist það vel skilaboðum Viðskiptaráðs sem m.a. komu fram í grein Finns Oddssonar framkvæmdastjóra ráðsins „Tími hugmyndafræði eða hagsýni?“. Að lokum benti Vilhjálmur á að nú væru fjárfesting og uppbygging  atvinnulífsins brýnustu úrlausnarefnin.

Alþingismenn ekki áttað sig á breytingum
Vala Valtýsdóttir talaði í erindi sínu um að nú væri í gangi „nýstárleg skattlagning á úthlutun arðs“ og á þar m.a. við mismunandi skattlagningu milli rekstrarforma. Einnig benti hún á að í dag væru engar reglur í gangi um reiknað endurgjald þar sem útgefnar reglur séu ekki í samræmi við ný lög. Gunnar Egill Egilsson fjallaði ítarlega um skattalagameðferð arðs samkvæmt nýjum skattalögum. Sú skattlagning á arði og söluhagnaði gengur að einhverju leyti gegn ESB-rétti eins og hefur verið dæmt um í Belgíu, en útfærsla þeirra er talin andstæð móður- og dótturfélags tilskipun ESB. Hugsanlega hafa alþingismenn ekki áttað sig á þeim viðamiklu breytingum sem nýtt skattkerfi mun hafa í för með sér, en með breytingunum er m.a. skattlagning á arði orðin ríflega 50%.

Verðum að draga úr ríkisútgjöldum
Ragnar Árnason talaði um að breytingar á skattkerfinu hefðu komið til framkvæmda án nægjanlegrar umhugsunar. Nú væru Íslendingar að ganga í gegnum nýja tegund af kreppu þar sem gríðarleg eignarýrnun hefur átt sér stað og miklar erlendar skuldaklyfjar liggja á þjóðinni. Heildar eignarýrnun er hátt í 5.000 ma. kr. að mati Ragnars, en innifalið í því er m.a. 91% lækkun hlutabréfa og fall á virði íbúðarhúsnæðis um 30%. Ofan á þetta sé hrein erlend skuldstaða um 5.739 m.a. króna eða fjórföld verg landsframleiðsla. Óhætt er að segja að þetta myndi góðan efnivið í langvarandi kreppu að áliti Ragnars og talsverð hætta er á greiðsluþroti ríkisins. Eina sjánlega leiðin út úr þessari kreppu er hagvöxtur, sem helst megi ná fram með aukinni framleiðni og tækniframförum, fjárfestingu í atvinnurekstri og skilvirkari nýtingu vinnuafls. Þær skattabreytingar sem stjórnvöld hafa ráðist í, vinnu gegn öllum þessum þáttum og eru því ekki líklegar til að skila árangri. Með það í huga taldi Ragnar að nærtækara hefði verið að draga úr umsvifum hins opinbera frekar en að hækka skatta.

Glærur frá fundinum:
Erindi Vilhjálms Egilssonar má nálgast hér.
Erindi Völu Valtýsdóttur má nálgast hér.
Erindi Ragnars Árnasonar má nálgast hér.
Erindi Gunnars Egils Egilssonar má nálgast hér.

Tengt efni

Einfalda megi skattkerfið

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, fullyrti að einfalda …
16. janúar 2026

Myndband: Er ríkið farið að þjónusta sig sjálft?

Lísbet Sigurðardóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs, fjallar um opnunartíma …
15. janúar 2026

Aðalfundur Viðskiptaráðs 2026

Aðalfundur Viðskiptaráðs Íslands fer fram þriðjudaginn 10. febrúar kl. 11:30 í …
13. janúar 2026