Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, fullyrti að einfalda mætti skattkerfið og boðaði breytingar til einföldunar á Skattadeginum sem fór fram í Hörpu í gær. Fjallað var um skatta og skattframkvæmd á breiðum grunni.

Skattadagurinn 2026 fór fram í Silfurbergi í Hörpu í gær en Viðskiptaráð stendur að viðburðinum ásamt Deloitte og Samtökum atvinnulífsins. Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, flutti opnunarávarp. Þar lagði hann áherslu á að skattkerfið væri undirstaða fjármögnunar almannaþjónustunnar en að of flókið, kostnaðarsamt og þungt skattkerfi væri til þess fallið að standa í vegi fyrir hagvexti.
Ráðherra benti í dæmaskyni á að gjalddagar hjá hinu opinbera væru yfir 130 talsins gagnvart fyrirtækjum og einstaklingum. Slíkt skapaði bæði óþarfa kostnað og flækjustig og boðaði hann að einföldun þessa fyrirkomulags yrði lögð fram á haustþingi. Hann sagði jafnframt að geta hagkerfisins til að bera aukna skattbyrði væri takmörkuð og því skipti miklu að opinberar tekjur væru nýttar af ábyrgð og með skýrum og réttlætanlegum markmiðum.
Í ræðu sinni fjallaði Daði einnig um gjaldtöku af vegakerfinu sem nauðsynlega leið til að standa undir vaxandi innviðakostnaði. Þá sagði Daði fyrirtækjaskatta almennt óheppilega skattstofna.
„Geta hagkerfisins til að bera aukna skattbyrði er takmörkuð og því skiptir ábyrgð og ráðdeild gríðarlega miklu máli. Hver króna sem ríkið tekur þarf að vera ráðstafað með ákveðnum fyrirsjáanlegum og réttlætanlegum tilgangi,“ sagði Daði.
Auk ráðherra hélt Guðbjörg Þorsteinsdóttir, lögmaður og meðeigandi hjá Deloitte Legal, erindi þar sem hún fór yfir helstu skattalagabreytingar síðasta árs og framkvæmd þeirra. Arnar Birkir Dansson, hagfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins, fjallaði í erindi sínu um samspil ríkis og einkaaðila við nýtingu auðlinda. Þá hélt Orri Hauksson, stjórnarformaður First Water, erindi um mikilvægi erlendrar fjárfestingar í hagsögulegu samhengi og tengsl hennar við skattastefnu stjórnvalda.
Einnig voru innslög frá röddum atvinnulífsins þar sem fjallað var um áhrif skattaumhverfis á rekstur, samkeppnishæfni og fjárfestingar.
Fundarstjóri var Lísbet Sigurðardóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs.



