Peningastefnunefnd

Í nýjum lögum um Seðlabankann, sem samþykkt voru á Alþingi 27. febrúar síðastliðinn, er kveðið á um að ákvarðanir um beitingu stjórntækja í peningamálum skuli framvegis teknar af sérstakri peningastefnunefnd. Stjórntækin sem um ræðir eru stýrivextir, ýmis viðskipti við lánastofnanir og bindiskylda, auk viðskipta á gjaldeyrismarkaði sem geta stutt við íslensku krónuna. Ákvarðanir nefndarinnar skulu grundvallast á markmiðum bankans og vönduðu mati á ástandi og horfum í efnahags- og peningamálum og fjármálastöðugleika. Þá ber nefndinni að gefa út opinberar viðvaranir meti hún að alvarleg hættumerki séu til staðar sem ógna fjármálakerfinu.

Formaður peningastefnunefndarinnar er Svein Harald Øygard, sem hefur tímabundið verið skipaður í embætti Seðlabankastjóra, en auk hans sitja í nefndinni Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur bankans. Þá hefur forsætisráðuneytið skipað tvo utanaðkomandi nefndarfulltrúa, Gylfa Zoega prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og Anne Sibert prófessor í hagfæði við Birkbeck háskólann í London.

Viðskiptaráð fagnar þessum breytingum enda ljóst að peningamálastefnan þarfnast endurskoðunar. Skipun nefndarinnar verður vonandi fyrsta skrefið í þessari endurskoðun, en með breyttu fyrirkomulagi og breiðum hópi sérfræðinga, þeirra á meðal utanaðkomandi fræðimanna, fylgja vonandi nýjar áherslur og önnur sýn á stjórn efnahagsmála. Einnig ber að fagna ríkri upplýsingaskyldu sem hvílir á nefndinni, en það mun gera starfsemi hennar markvissari og gagnsærri. Þá er fyrirkomulagið líklegt til að stuðla að endurreisn trúverðugleika bankans út á við, bæði á Íslandi og í Alþjóðasamfélaginu.

Endurskipulagning Seðlabankans virðist nú vera á lokastigi, sem er sérstakt fagnaðarefni þar sem óvissa um framtíð bankans hefur tafið endurreisnarstarfið. Nú þegar þessum áfanga er lokið getur Seðlabankinn einbeitt sér að fullum krafti að einu brýnasta hagsmunamáli íslensku þjóðarinnar, framtíðarstefnu í peningamálum.

Tengt efni

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023

Greiðslumiðlun Schrödingers

„Með frumvarpinu er ekki einungis verið að veita Seðlabankanum heimild til að ...
4. mar 2024

Fermingaráhrifin

Svanhildur Hólm fer yfir fermingaráhrif í efnahagslegu samhengi.
12. apr 2024