Viðskiptaráð Íslands

Vanskil ársreikninga

Fyrr í vikunni fjallaði Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, um sektarheimildir hins opinbera vegna ítrekaðra vanskila á ársreikningum fyrirtækja. Ljóst er að pottur hefur verið brotinn í skilum íslenskra fyrirtækja á undanförnum árum og er það til mikilla vansa. Sem dæmi má nefna að í ágúst á síðasta ári, á eindaga skila fjárhagsupplýsinga, höfðu aðeins 12% fyrirtækja hér á landi skilað ársreikningi fyrir árið 2007 til Ársreikningaskrár. Enn þann dag í dag, í byrjun apríl 2009 eða einu og hálfu ári eftir eindaga, eiga um 23% fyrirtækja eftir að skila ársreikningi fyrir árið 2007. Því miður eru einnig fjölmörg dæmi um að fyrirtæki hér á landi hafi ekki skilað ársreikningum svo árum skipti.

Vanskil ársreikninga er heimatilbúið vandamál sem vart þekkist í nágrannalöndum okkar. Ástæðan er einkum sú að erlendis hafa yfirvöld víðtækari refsiheimildir við vanskilum, ekki eingöngu í formi fjársekta heldur einnig til inngripa í starfsemi fyrirtækja ef aðrar aðgerðir bera ekki árangur. Mikilvægt er uppræta þetta vandamál í íslensku viðskiptalífi, enda er það hagur allra sem stunda viðskipti að auka gegnsæi og trúverðugleika atvinnulífsins. Því ættu vanskil af þessu tagi að heyra til undantekningar en ekki reglu líkt og nú.

Viðskiptaráð Íslands hefur ætíð talað fyrir mikilvægi gegnsærrar og skilvirkrar upplýsingamiðlunar viðskiptalífsins og hvetur ráðið því öll félög sem eiga eftir að skila inn fjárhagsupplýsingum fyrir árið 2007 (og í sumum tilfellum árshlutareikningi 2008) að gera það hið fyrsta. Til að mynda mun gagnsæi og skilvirk upplýsingamiðlum fyrirtækja liðka fyrir því að greiðslur frá íslenskum fyrirtækjum fáist tryggðar hjá erlendum greiðslutryggingarfyrirtækjum. Fyrirtæki sem ekki skila fjárhagsupplýsingum á réttum tíma eru í raun að vinna gegn eigin hagsmunum og hagsmunum alls atvinnulífsins.

Í þessu sambandi er ástæða til að taka undir sjónarmið ríkisskattstjóra um að stofnunin fái auknar heimildir til aðgerða við vanskilum á fjárhagsupplýsingum.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024