Viðskiptaráð Íslands

Gott samstarf atvinnulífs og yfirvalda í ársreikningamálum

Viðskiptaráð hefur í starfsemi sinni á síðustu misserum hvatt fyrirtæki til að standa skil á ársreikningum sínum og bent á mikilvægi þess fyrir atvinnulífið í heild. Þá hefur ráðið undanfarið unnið í samstarfi við ýmsa aðila að því að skerpa hvata fyrirtækja til að skila inn ársreikningum á tilsettum tíma. Þó eitthvað hafi áunnist í þeim efnum er ljóst að vinna þarf frekar að því að bæta skil á ársreikningum, en aðeins um 60% skilaskyldra fyrirtækja hefur skilað ársreikningi fyrir árið 2009 til ársreikningaskrár.

Þetta hefur ráðið gert fram til þessa til að vinna að farsælli lausn í málinu:

  • Félagar í Viðskiptaráði hafa sérstaklega verið hvattir til að skila ársreikningi á tilsettum tíma, en minnt hefur verið reglulega á mikilvægi skila í ýmsum tilkynningum frá ráðinu.
  • Í maí s.l. sendu Viðskiptaráð Íslands og Samtök atvinnulífsins fjármálaráðherra formlegt erindi þar sem óskað var eftir samstarfi um samræmingu á reglum um ársreikninga og viðurlögum þeim tengdum við það sem gerist í nágrannalöndum okkar.
  • Fulltrúar Viðskiptaráðs hafa fundað með forsvarsmönnum Ríkisskattstjóra og Fyrirtækjaskrár og eru fyrirhugaðir fundir með efnahags- og viðskiptaráðuneyti og fleirum aðilum.
  • Ráðið hefur tekið undir átak RSK á þessu sviði í fjölmiðlum, en nýverið var fjallað um málið í Fréttablaðinu og m.a. rætt við Tómas Má Sigurðsson, formann ráðsins.
  • Í inngangi að nýjustu útgáfu Viðskiptaráðs af Stjórnarháttum fyrirtækja er minnt á að hagsmunir íslensks viðskiptalífs og samfélags í heild eru of miklir til að brotalöm verði á að vinnulag í atvinnulífi samræmist þeim leiðbeiningum sem fyrir liggja. Á þetta sérstaklega vel við um skil á ársreikningum, en slök skil á grundvallar rekstrarupplýsingum fyrirtækja hafa dregið úr tiltrú á íslenskt atvinnulíf, bæði hérlendis en ekki síst erlendis.

Mikilvægt fyrir atvinnulífið
Nú hefur ríkisskattstjóri gefið það út að sektarákvæðum verði beitt á þau ríflega 15.000 fyrirtæki sem ekki hafa skilað inn ársreikningi fyrir árið 2009. Þá hafa lagabreytingar jafnframt verið nefndar sem auðvelda myndu yfirvöldum að svipta eigendur félaga réttinn á takmarkaðri ábyrgð og bæru þeir því fulla ábyrgð á rekstri félagsins með sínum einkaeigum. Viðskiptaráð hvetur því enn og aftur þá félaga ráðsins sem ekki hafa skilað ársreikningi til að gera það sem allra fyrst og koma þannig í veg fyrir sektir, hvað þá róttækari úrræði.

Hér er um að ræða mál sem mikilvægt er fyrir atvinnulífið að fylgja eftir. Viðskiptaráð mun því halda áfram að beita sér af krafti í þessum málaflokki og stuðla þannig að gagnsærra og heilbrigðara viðskiptalífi.

Nýlegar umfjallanir fjölmiðla um málið:

Eldri fréttir Viðskiptaráðs:

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024